05 febrúar, 2006

Um Vöku og skítlegan málflutning

Ef marka má málflutning þeirra sem hafa fengið símtal frá andstæðingum Röskvu, þá er nokkuð ljóst að Vökuliðar ljúga eins og þeir eru langir til. Ég hef séð ýmislegt síðastliðin tvö ár en aldrei orðið vitni að jafnmarkvissum bull-málflutningi og í ár.
Það gerir heiðarlegu fólki erfitt fyrir. Ég hef engan áhuga á því að ljúga upp á andstæðinga mína. Ég þarf ekki á því að halda því málstaður minn er heill og fylkingin mín hefur unnið gott starf undanfarið ár.

Lygarnar sem komið hafa fram eru að Röskva vilji mótmæla virkjunarframkvæmdum og reykingum á skemmtistöðum í nafni Stúdentaráðs. Virkjunarframkvæmdir hafa aldrei verið til umræðu innan Röskvu og aðeins einn Röskvuliði lýsti yfir áhuga á því að álykta með reykingabanni. Í krafti meirihlutans var sú tillaga felld innan samtakanna.
Hins vegar var Vaka mjög fylgjandi mótmælum gegn ritstjórnarstefnu DV. Ef marka má yfirlýsta stefnu þeirra um hlutverk Stúdentaráðs (að það megi bara álykta um mál sem varða stúdenta beint og allir stúdentar eru sammála um), þá eru þau í hrópandi mótsögn við sjálfan sig. Röskva tók þátt í þessum mótmælum, enda sjálfsagt að Stúdentaráð og hreyfingarnar láti í sér heyra um málefni líðandi stundar ef meirihluti ráðsins er sammála um að taka afstöðu.

Það er greinilegt að Vaka er í dauðteygjunum málefnalega. Sama má segja um málefnaskrá þeirra sem inniheldur bæði hreinar lygar og málefni sem fundin voru í málefnaskrá Röskvu.

Annað mál eru lygar um lánasjóðsamningana. Vaka heldur því fram að fullt af fólki hafi tapað á samningunum. Í raun voru það aðeins 8% sem töpuðu frá 0 - 1600 kr á mánuði og það voru ekki þeir verst settu. Yfir 90% græddu á breytingunum og var fólk að fá allt upp undir 10.000 krónum meira á mánuði en áður. Vaka hagræðir sannleikanum sér í vil og rýrir trúverðugleika SHÍ í leiðinni.

Síðasta útspil þeirra var gagnrýni á Röskvu fyrir að vilja frekar berjast með Þjóðarbókhlöðunni til þess að fá meira fjármagn til hennar, heldur en að Stúdentaráð vinni sjálfboðavinnu þar á kvöldin. Ég hef það frá Landsbókaverði að hún vill ekki sjá neina ölmusu og lélegar lausnir á fjárhagsvandanum heldur vill hún fá það fjármagn sem stofnuninni ber. Það hljómar kannski ekki hetjulega en ég hef margt betra við tíma minn að gera heldur en að vakta Þjóðarbókhlöðuna og Vökuliðar hefðu það líka ef þeir sinntu hagsmunabaráttu stúdenta af heilum hug.

Oddviti Vöku hafnaði embætti á Réttindaskrifstofu SHÍ í sumar á þeim forsendum að þar væri ekkert fyrir hann að gera!!! NEI, hagsmunabarátta stúdenta hefur einmitt alltaf þjáðst af of fáum verkefnum! Vaka hefur því ekki efni á að kvarta yfir starfinu í vetur. Með fleiri starfsmönnum á skrifstofunni eflist að sjálfsögðu baráttan. Og þetta var ekki spurning um sparnað því búið var að hagræða málum þannig að launakostnaður myndi ekki hækka þrátt fyrir fleiri starfsmenn.

Þetta er kannski drull en ég er bara að segja sannleikann því hann er sagna bestur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home