Amma mín er haldin óskaplegri söfnunaráráttu og hefur troðfyllt húsið sitt af gömlum húsgögnum og munum sem hún tengist órjúfanlegum tilfinningaböndum. Ég hef alltaf haldið því fram að ég sé alls ekki þannig og ég reyni að eiga sem allra minnst. Þegar ég flutti að heiman kom hins vegar annað í ljós. Ég á marga kassa fulla af dótaríi sem ég hef fullkomlega engin not fyrir en fæ ekki af mér að henda.
Núna, einu og hálfu ári eftir að ég sagði skilið við móðurfaðminn er mamma ennþá að týna til druslið mitt og biðja mig vinsamlegast að færa þetta yfir í mína eigins geymslu. Eftir að hafa farið í gegnum alla kassana sit ég enn uppi með hluti eins og sálmabókina sem ég fékk þegar ég fermdist (missti seinna trúnna og hef þess vegna ekkert við hana að gera), einkunnaspjöld, sem spanna 18 ára skólagöngu mína, viðurkenningar fyrir atburði sem ég man ekki einu sinni eftir og reiðinnar býsn af jóla- og afmæliskortum. Af einhverjum furðulegum orsökum fæ ég það ekki af mér að henda þessu í ruslið. Hugsanlega af því að ég man aldrei neitt og er hrædd um að hluti ævi minnar fari í ruslið um leið og gleymist.
Hlutir sem fengu þó að hverfa var fimmtán ára gömul flétta (hár er ógeðslegt) og barnatennurnar sem ég missti (hvað er það!) og viðurkenningar fyrir atburði eins og 'Norræna barnahlaupið '92'. Hlutir sem gaman var að finna aftur voru bréf og kort frá fólki sem ég hafði gleymt. Eitt þeirra var afmæliskort og mynd eftir 'kærasta' minn sem ég átti þegar ég var fimm ára. Ég man ekkert eftir honum, frekar en öðru. Einu minningarnar tengjast afmælismyndum þar sem við erum að borða súkkulaðiköku með súkkulaðið út á kinnar. Ég varð svo forvitin að vita hvað hefði orðið um þennan litla kærasta að ég ákvað að hafa upp á honum. Ég þurfti samt að hugsa málið vel fyrst því það er frekar óhugnalegt hversu auðvelt er að galdra fram persónulegar upplýsingar um fólk og svo er alls ekki víst að manni líki það sem maður finnur. En í ljósi sakleysislegra fyrirætlana minna (ok, og óstjórnlegrar forvitni) ákvað ég að gúggla nafnið hans. Ég komst að því að hann er læknanemi í Ungverjalandi og ástæðan fyrir því að ég verð ekki forpokuð læknafrú er að hann fluttist til Vestmannaeyja ungur að árum. Eftir að hafa kíkt á bloggsíðuna hans og komist að því að ég kannast við góðan vin hans ákvað ég að láta gott heita. Minningin, þótt óljós sé, nægir alveg.