30 janúar, 2007

Fá einn kaldan takk!

Liðir, vöðvar og bein hafa liðið slíkt harðræði undanfarna viku að ekki hefur mikil orka verið eftir til að skrifa þreytulegar hugsanir. Líkaminn er alls ekki vanur dagvinnu lengur. Það eina sem líkaminn gerði undanfarna þrjá mánuði var að sitja og sitja, allan daginn. Líkaminn var orðinn mjög góður í því að sitja og hættur að kenna sér um mein. Nú vill hann alls ekki standa og hlaupa, þess þá heldur að halda á bökkum, goskössum og bjórtunnum. Aumingja hann. Annars er ég bara hress.

Í gærkvöldi hjólaði Österbrogengið út á íþróttabullubar við hliðina á Parken til þess að horfa á leikinn. Annars hefði það alls ekki lagt leið sína á bullubar, því þeir eru ógeðslegir. Leikurinn var ekki byrjaður þegar við komum en þess í stað voru íþróttir ýmis konar í mörgum sjónvörpum. Í fremri hlutanum staðarins voru básar að amerískum sið og heljarinnar bar úr dökkum viði. Við barinn stóðu tveir unglingar, strákur og stelpan, sem bæði voru með fitugt hár og stelpan með maskarann niður á kinnar. Stymmi pantaði bjór en ég, af einhverjum orsökum, pantaði mér rauðvín. Mér til varnar, þá fattaði ég eftir að hafa sleppt orðinu að maður að sjálfsögðu pantar sér ekki rauðvín á sveittum bullubar. Með lýsingarorðinu sveittur meina ég að allir þar inni, bæði gestir og starfsfólk, voru sveitt, lyktin var sveitt og jafnvel glösin voru sveitt því í hvert skipti sem við pöntuðum drykk þurfti að skola glösin og fægja.

Rauðvínið reyndist á endanum vera ágætt og tel ég heppni hafa ráðið því, þar sem ég geri ekki ráð fyrir að sveitti eigandinn né konan hans með apeköttið séu mikið í vínsmökkuninni. En þó veit maður aldrei.

Inni fremri helmingnum með básunum voru tilheyrandi amerískar skreytingar á veggjunum. Frá lofti og niður að panelnum á miðju veggjarins voru máluð hús með neonskiltum á og amerískir kaggar. Á barnum héngu síðan litlir plattar með skemmtilegum áletrunum á borð við; Það eru til tvenns konar konur. Þær sem verða reiðar út af öllu og þær sem verða reiðar út af engu eða Ástæða þess að konur leggja mikla áherslu á útlitið og litla á vitsmuni er sú að karlar sjá betur heldur en þeir hugsa . Blaðaúrklippu hafði verið komið fyrir á einni barhillunni þar sem stóð Mig langar í Cadillac. Auk þess að vera bullubar var staðurinn einnig veitingahús, þótt ótrúlegt megi virðast, og voru alls ófáir sem gæddu sér á úrvali rétta, svo sem kjöti í brúnni sósu, djúpsteiktum kjúklingavængjum og rifjasteik. Allt framreitt af konunni með apeköttið í sveittu eldhúsinu.

Innri hluti staðarins er sá sem mætti kalla fágaðri hlutinn. Þar var ítalskt þema. Á veggjunum voru freskur af fjallasýn og víntunnum á vínóðali þar sem kátir vínbændur sátu og spjölluðu. Datt mér helst í hug að þarna hafi áður verið ítalskur veitingastaður sem hafi lagt upp laupana og íþróttabullurnar tekið við. Allt þar til ég kom auga á konuna. Við eina víntunnuna stóð löguleg kona á snípsíðum rauðum kjól og laumaðist í vínsopa. Henni var ef til vill bætt við listaverkið síðar.

Það var aðeins ein lítil trappa á milli hlutanna tveggja svo lyktin inni í fágaða hlutanum var ekki síður sveitt en í þeim ameríska. Á borðum voru rauðir velúrdúkar og dekkað upp með hvítum servíettum og hnífapörum, sem eitt sinni höfðu verið svört. Það stoppaði fólk þó ekki í því að nýta sér veisluþjónustu staðarins og halda afmæli þar inni. En auk veisluþjónustu var einnig boðið upp á take away fyrir aðeins tíu krónur aukalega.

Þarna skyldum við sitja í klukkustund og horfa á handbolta. Enginn veit sína ævi fyrr en öll er og hver skyldi hafa trúað mér til þess að sitja þarna inni. Reyndar með rauðvínsglas - en samt. Á næsta borði sátu Danir í sama tilgangi og við. Þeir voru ansi bullulegir svo við hvísluðum bara fagnaðarorðin þegar Ísland skoraði. Eftir fyrri hálfleik var ég komin í ham og langaði að panta mér einn Carls special og flögur, en eftir að seinni hálfleikur hófst missti ég alla löngun. Nágrannarnir á næsta borði röðuðu hins vegar í sig öl og frönskum með bestu lyst. Það var ekki fyrr en í framlengingu sem ég lét loks slag standa og fékk mér einn kaldan. Lítinn reyndar en flögur með. Ég get svo svarið það. Svona er maður flippaður í útlöndunum.

23 janúar, 2007

En ég kann ekki dönsku

Fyrsti vinnudagurinn er að baki. Frikki Weiz var í góðum fíling að þurrka af barnum og leggja mér lífsreglurnar og ég reyndi að fylga þeim í hvítvetna í dag. Danski starfsframinn byrjaði að minnsta kosti vel, en það sama verður ekki sagt um dönskuferilinn. Hann er svo til kominn í ræsið.

Það hófst allt þannig að ég skráði mig í viðtal í dönskuskóla á Nörrebro. Skóla sem leggur mikinn metnað í að kenna útlendingum alvöru dönsku á sem stystum tíma, einmitt það sem ég lagði mesta áherslu á. Hratt og vel. Ég fékk sem sagt viðtal hjá dönskukennara sem fór fram í gær. Hann átti að meta hvers konar kennsla myndi reynast mér best.

Ég mætti tímanlega í gær og var örlítið stressuð yfir þessu mati á dönskukunnáttu minni, því Íslendingur ætti með réttu ekki að fara í dönskuskóla. Með mér í kynningarhluta prógramsins voru: einn hress Portúgali, einn Frakki, einn Íslendingur, einn Ástrali og ein kóresk nunna. Portúgalinn óð mikinn, gekk á röðina og spurði alla hvaðan þeir væru. Þegar komst upp um okkur Jökul, hinn Íslendinginn, að við værum í raun Norðurlandabúar var farið í gegnum skyldleika tungumálanna "yes we have a special language in Iceland, we call it Icelandic" ..og blabla. Seinna fórum við Jökull yfir það hvar við byggjum í bænum, hversu há leigan væri, bölvað vesen að geta ekki horft á handboltann (þar var ég samt komin í spjallstuð því mér gæti ekki verið meira sama) og að lokum sagði ég honum, í óspurðum fréttum, að þótt lokað væri fyrir handboltann þá gæti hann alltaf hlustað á gamla þætti um Bob Dylan í umsjá Megasar á ruv.is. Af hverju ég sagði honum það, veit ég eigi. Stundum rennur bara bullið út úr mér þegar ég tala við ókunnuga.

Eftir stutta kynningu á skólanum fóru fram einstaklingsviðtöl þar sem hver og einn skyldi metinn verðleikum. Ég var orðin frekar stressuð, enda ekki mjög hrifin af svona löguðu. Þegar inn var komið svissaði kennarinn yfir í dönskuna því að ég er Íslendingur og þeir skilja dönsku. Er það ekki annars? Þetta var fyrsta tækifæri mitt til þess að láta á dönskuna reyna síðan ég flutti svo ég hikstaði upp úr mér nokkrum orðum. Löngu spjalli og mikilli pappírsvinnu síðar hallaði kennarinn sér aftur í stólnum og spurði mig beint út af hverju ég vildi læra dönsku, ég kynni hana svo ágætlega. "Já nei" sagði ég "ég kann sko ekki dönsku - ég get bara svona svarað einföldum spurningum og sagt nokkur orð". "Aha" svaraði dönskukennarinn "ég hef ekki vald til þess að setja þig í annað en byrjendanámskeið, en það hentar þér ekki, svo þú verður að tala við studentvejlederen Susanne".

Ég beið líklega í góðar fimmtán mínútur eftir studentvejlederen Susanne. Hún birtist síðan örsnöggt fyrir hornið og sagði mér að fylgja sér. Hún var eldri en sú sem ég hafði talað við áður og átti eigin skrifstofu svo hún hlaut að fá úr þessu skorið. Eftir stutt spjall afréð hún að ég skyldi taka tveggja klukkustunda málfræðipróf. Þar sem að ég hafði ekki margt á prjónunum þann daginn ákvað ég að skella mér. Þá kæmist ég fyrr af stað með dönskunámið. Því fyrr, því betra. Hún beindi mér inn á litla skrifstofu þar sem ég skyldi taka prófið. Á meðan á því stóð þakkaði ég Erlu Elínu fyrir að hafa hrætt úr mér líftóruna í Kvennó og fyrir að muna ennþá trikkið við að taka tungumálapróf. Í tungumálaprófum er prófað úr ýmis konar reglum eins og t.d. hvenær maður notar "når" og hvenær "da". Ef maður getur ómögulega munað hvenær maður notar hvað þá bíður maður alveg rólegur, því að síðar í prófinu mun koma texti þar sem orðin eru notuð á réttan hátt og þá er hægt að átta sig á reglunni. Nú þekkið þið ástæðu góðs gengis undirritaðrar í tungumálaprófum í menntó. Það hafði ekkert með þekkingu á námsefninu að gera.

Prófið gekk vel og ég lauk því með að stuttri ritgerð um það hvernig ég nota internetið. Ég var komin á blússandi siglingu og fór löngum orðum um það hversu mikilvægt internetið er mínu lífi. Kennarinn var í meira lagi impóneraður og ég bjóst við að vera boðið heiðurssæti í heldrimannabekk skólans fyrir advanced nemendur. En nei, þannig gekk það ekki fyrir sig. Mér var hreinlega neitað um skólavist. Susanne sagði að ég hefði ekkert til þeirra að gera, svo góð væri danskan. Ég fann fyrir beiskri höfnunartilfinningu og skildi raunar hvorki upp né niður í þessu. Ég starði orðlaus á Susanne bæði vegna undrunar og líka vegna þess að ég kann ekki dönsku. Síðan hrökklaðist ég út.

16 janúar, 2007

Hvað svo?


Það var og ... ég sat sveitt í dag við að setja ritgerðina mína yfir á heimasíðuna eða alveg þar til að ég sá að kennarinn minn hefur nú þegar gefið mér einkunnina 'staðist'. Ég sem átti ekki að skila fyrr en í enda vikunnar. Nú veit ég ekkert hvað ég á að gera. Klárar maður verkefni ótilneyddur? Textinn er allur kominn inn og ég á bara eftir að myndskreyta og setja inn heimildaskránna. Ef til vill er það fín atvinnubótavinna næstu daga fyrir atvinnuleysingjann. Ég sótti um fyrstu vinnuna í dag. Nú krossa ég fingur, bíð og vona.

Það var ekki svo gott fyrir taugarnar að fara yfir texta ritgerðarinnar aftur. Loksins sá ég allar villurnar sem ég gat ómögulega komið auga á í síðustu viku. Ég svitnaði og var farin að sjá fyrir mér prófdómarann í kastinu yfir því hversu margir þroskaheftir komast í gegnum háskólanám nú á dögum (með fullri virðingu fyrir þroskaheftu fólki). Aftur krossa ég fingur, bíð og vona. Mun Eva feta í fótspor fjölmargra landa sinna og enda sem ómenntaðar atvinnuleysingi í Danmörku? Stay tuned...

15 janúar, 2007

Hjemme

Þá erum við komin heim. Það var gott að þykja gott að vera komin heim. Allt gekk vel og um níuleytið höfðum við, með góðri aðstoð frá Önnu og Goða, gengið frá öllu og lögðum af stað á víetnamska veitingahúsið í götunni okkar. Við höfum komist að því með tímanum að í hverfinu eru sérstaklega góðir veitingastaðir. Á laugardagskvöldið kynntumst við enn öðrum stað. Þá voru allir heitu staðirnir í borginni upppantaðir svo við ákváðum að fara á pínkulítinn átta borða stað, Fru Heidberg, sem við höfðum margsinnis horft inn um gluggana á. Við urðum vægast sagt ekki fyrir vonbrigðum, því þar fengum við sannkallaða upplifun í mat. Allir réttirnir sem komu á borðið voru dásamlegir. Ég held að ég geti kallað matinn þann besta sem ég hef fengið á veitingastað. Á eftir fórum við á La Fontaine að hlusta á djass fram eftir nóttu. Á sunnudag voru menn þreyttir og lítið gert annað en að borða og hvíla sig.

Helgin kom verulega á óvart og ég vona að framhald verði á svo ljúfri stemningu hér á Östbane. Nú mun atvinnuleit og dönskulærdómur taka við af blessuðu bókasafninu.

Grein eftir undirritaða birtist í fyrramálið, þriðjudaginn 16. janúar, á Vefritinu. Í henni reifa ég BA-maníuna mína og geri tilraun til að tengja hana raunveruleikanum.