22 apríl, 2007

Grein



eftir mig á Vefritinu í dag. Smella hér.

18 apríl, 2007

Mikið rétt

Í síðasta tölublaði Framtíðarlandsins birtist athyglisverður leiðari. Ég birti hann hér svo þú (Stymmi þá) getir lesið og hugsað málið.

Góð lögga – vond lögga

Sitjandi stjórnarflokkarnir tveir hafa skipt með sér verkum. Sjálfstæðisflokkurinn er góða löggann: sá sem sýnir skilning og vill vel en þarf samt að vinna vinnuna sína. Framsóknarflokkurinn er vonda löggan: sá sem er óbilgjarn, froðufellir og lætur kaffið skvettast upp úr bollanum.

Okkur er ætlað að treysta góðum ásetningi Sjálfstæðismanna, treysta því að innan flokksins sé hópur sem kallast 'hægri grænir', treysta því að flokkurinn vilji jafnvel ganga til stjórnarsamstarfs við Vinstri-græna.

Í leiðara í Fréttablaðinu túlkar Þorsteinn Pálsson dalandi fylgisaukningu VG sem viðbragð við niðurstöðunum í Hafnarfirði: kjósendur hafi nú friðað samvisku sína með því að úthýsa stækkuninni þar og láti sér það nú í léttu rúmi liggja að álver rísi í Helguvík og á Húsavík. Þetta sé komið gott af stóriðjustoppi.

Túlkun Þorsteins segir líklega mest um viðhorf Sjálfstæðismanna sjálfra. Þeir geta unað Hafnfirðingum þess að hafa kosið burt stækkunina. Þeir geta unað Vinstri grænum fylgisaukningu á kostnað Samfylkingar og daðrað um stjórnarsamstarf. En flokkurinn ætlar ekki að skuldbinda sig til neins í stóriðjumálunum, við eigum bara að treysta góðum vilja hans.

En góða og vonda löggan vilja það sama. Staðreyndin er sú að enn sem komið er hafa Sjálfstæðismenn engar ákvarðanir tekið í umhverfismálum sem kalla má hugrakkar. Þeir hafa leyft sér að tala um málaflokkinn og sýna honum áhuga, en þegar á hólminn er komið er ekkert sem bendir til að Sjálfstæðisflokkurinn vilji hægja för í stóriðjumálum frekar en Framsóknarflokkurinn.

Þessi verkaskipting er að sjálfsögðu auðveldari en að taka málin alvarlega á dagskrá innan flokksins. Samfylkingin er þegar upp er staðið eini íslenski stjórnmálaflokkurinn sem raunverulega hefur þurft að berjast fyrir vægi umhverfismála innan eigin raða. Það hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki ennþá gert.

Kjósendur vita að innan Sjálfstæðisflokksins eru vonarneistar. Tilvitnanir í nokkra af framámönnum flokksins valdar af handahófi sýna þetta berlega. Þær sýna að flokkurinn getur sem frjálslyndur borgaraflokkur gengið mun lengra í umhverfismálum en hann hefur hingað til gert – og það með góðri samvisku. Hvers vegna ekki að gera meira?

--------------------

Ég held að það sé öllum ljóst að forysta Sjálfstæðisflokksins er alls ekki hlynnt náttúruvernd. Geir Haarde tók undir með Jón Sigurðssyni í leiðtogaþætti Kastljóssins að ekkert lát verður á framkvæmdum ef ríkisstjórnin heldur velli. Vonarneistarnir sem greinin nefnir endurspeglast í landsfundarályktun flokksins um umhverfis og auðlindamál, þar sem farið er fögrum orðum um náttúru landsins og hugvit þjóðarinnar, en það er auðvitað vitað mál að aldrei hefur landsfundur Sjálfstæðisflokksins nokkurn tímann haft raunveruleg áhrif á stefnu flokksins og oft er skoðun stuðningsmanna flokksins í fullkomnu ósamræmi við gjörðir hans. Átakalínur eru látnar liggja á milli hluta og þaggaðar í hel. Fyrir utan umhverfismálin, varnarmálin og velferðarmálin má nefna þá neyðarlegu stöðu flokksins þegar fyrrum formaður hans, Davíð Oddsson, mætti ekki á sjálfan landsfund. Hvers vegna spyr enginn spurninga um það?

10 apríl, 2007

Minimalísk færsla

Æ, sorglegt blogg og enginn metnaður fyrir því núna. Mæli með Stymmabloggi. Hann hefur tekið við sér og sýnir nú sjálfsmyndir, mér til mikillar ánægju og yndisauka. Vefritið er að gera góða hluti - skyldulesning. Trúnó fyrir jafnréttisáróður dagsins. Samfó.is til að stytta sér stundir.

Ég hef næstum því eignast heimili á Íslandi í byrjun ágúst. Þar til þá verð ég á flakki milli góðhjartaðra vina og vandamanna. Ef þið vitið um húsnæði sem er laust í júní og júlí, þá megið þið taka það frá fyrir mig.

Vinnan er góð. Íbizafjörður er skemmtilegur. Landsfundur verður taumlaus gleði. Og svo einn brandari í lokin.