21 nóvember, 2006

MS-ÍS gengið

Þá er Sunna farin og brátt er von á mömmunni og litla bró. Það er nóg að gera í útlöndum, ef útlönd skyldi kalla. Þetta er meira eins og að vera á Íslandi með örlítið fleiri innflytjendum.

Við Styrmir höfum ákveðið að stofna gengi. Við sáum heimildaþátt á National Geographic um gengið MS-13 í Los Angeles og langar núna að gera eigið útibú á Österbro, sem við köllum MS-ÍS. Á morgun förum við á tattústofuna á Fiolstræde og fáum okkur MS á annað augnlokið og ÍS á hitt, eins og er til siðs. Við sjáum mikla möguleika í þessu. Við innheimtum skatt af öllum smásölunum í hverfinu. Byrjum kannski í 25% en hækkum í 50% þegar við höfum safnað fleiri hörðum grunnskólabörnum í lið með okkur. Innvígsluaðferðin hjá Könunum er svolítið ýkt, 13 sekúntur af barsmíðum frá félögunum. Við förum kannski í svona fimm. Það er alveg hægt að ná góðum höggum á þeim tíma. Þá eigum við bara eftir að finna óvinagengi og skotvopn. Það er víst nóg af því uppi á Nörrebro.

MS-13 er að finna í 33 ríkjum Bandaríkjanna og í sjö löndum utan BNA. Í San Salvador einni telja gengjameðlimir 10.000 manns. Gengið byrjaði sem sakleysislegur félagsskapur ungra innflytjenda frá El Salvador á fótboltavelli í LA. Þeir voru rokkarar, Ozzie Osborne aðdáendur, og þaðan fékk gengið fingramerki sitt "the devil's horn". Með tímanum urðu þeir rætnari og tóku til við ýmsa glæpastarfsemi auk þess sem þeir reyndu að fjölga meðlimum gengisins.

Tíu árum síðar var MS-13 orðið fjölmennasta gengi LA og átti í stöðugum útistöðum við önnur gengi. Þá ákváðu bandarísk stjórnvöld að senda meðlimi sem þeir handtóku aftur til upprunalands síns. Það reyndist afar slæm hugmynd. Í stað þess að takast á við félagsleg vandamál í eigin ríki sendu þau vandamálið yfir til annarra ríkja, þar sem það hélt af sjálfsögðu áfram að vera til. Fyrir árið 1992 höfðu gengjaglæpir ekki verið til í El Salvador. Nú er þar að finna fjölmennasta og ofbeldisfyllsta anga gengisins, ásamt troðfullum fangelsum af MS-13 meðlimum.

Í Bandaríkjunum herja gengin á svokallaða milliskóla eftir nýjum meðlimum, en margir vilja byrja enn fyrr að þjálfa upp hermenn í stríðið gegn genginu í næstu götu. Aðalviðmælandi myndarinnar hafði gengið í gegn um innvígsluna aðeins átta ára gamall og hafði skotið um 20 menn á þeim ellefu árum sem hann hafði verið hluti af genginu.

Fyrst Bandaríkjastjórn hefur svo miklar áhyggjur af öfgafullum múslímum í Mið-Austurlöndum ættu þeir ef til vill að líta sér nær, því ef þetta eru ekki hryðjuverk hvað er það þá?

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er athyglisverður punktur Eva. Ég hef sjálf ekki mikið pælt í þessum gengjum í L.A. en sá hins vegar mynd fyrir nokkrum mánuðum sem hreyfði heldur betur við mér en hún heitir Redemption: The Stan Tookie Williams Story og fjallar um þennan Stan sem stofnaði Crip gengið í L.A. Hann var held ég fyrsti gengjagaurinn sem var tekinn af lífi í BNA, en það var í desember í fyrra minnir mig. Ég fylgdist dáldið með því. Jæja OK segi ekki að ég hafi ekki pælt dáldið í þessu.. Allavega mæli með þessari mynd, þetta er sjónvarpsmynd leikin af Jamie Foxx og fæst á spólu. Over.

9:56 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

sko verður maður annað hvort að vera með eða á móti??? svona éta eða vera étinn???

því ég vil ekki vera étin -I´m in ... tek enga sénsa sko!

bandaríkin eru friðelskandi þjóð sjáðu til... sem trúir á guð og dómsdag!

4:43 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Það er meira segja reyndar talið að hægt sé að rekja sögu Mara Salvatrucha ennþá lengra (þó umdeilt) eða aftur til borgarastríðsins í El Salvador - en önnur hlið þess, þær svokölluðu "dauðasveitir", voru studdar og fjármagnaðar af BNA-stjórn og fólki bókstaflega slátrað, sérstaklega indjána-ættuðum. Vegna stríðsins flúði fólk síðan í stórum stíl, t.d. til Los Angeles þar sem MS er sagt hafa orðið til vegna árasa af hálfu fyrrum innflytjenda og gengja þeirra, aðallega frá Mexíkó.

Astandið hefur líka bara stöðugt versnað í Hondúras síðustu árin, en gengin voru varla þekkt þar áður en BNA-menn tóku upp á því að senda gengismeðlimi "aftur" til Mið-Ameríku. Og það kaldhæðnislega er að þetta bitnar mest á fátæka fólkinu sem er náttúrulega varnarlausast.

Ástandið hefur síðan versnað enn frekar eftir að ríkisstjórnir Hondúras og El Salvador hertu löggjöfina sem gefur lögreglunni kleift að handataka hvern þann sem gæti mögulega verið í gengi, eða lítur út fyrir það, þannig að fangelsin fyllast, líka af saklausum, sem verða síðan kannski gengismeðlimir bara af því þeir voru settir í fangelsi. á meðan virðist síðan ekkert reynt til að bæta félagslegt kerfi eða lífsgæði fólks sem er það sem gæti mikið frekar unnið gegn þessu í staðinn fyrir herta refsilöggjöf. Enda leiðast margir út í gengin vegna fátæktar og lítilla möguleika.

11:36 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Já, þetta er alveg ótrúlegt. Maður hefur oft heyrt um þessi og hin gengin en aldrei fyllilega áttað sig á því hversu alvarlegt vandamál þetta er. Krakkarnir gera þetta raunar að lífsstíl og gengið er fjölskylda þeirra. Ég skildi aldrei alveg hvað allt þetta fuss var yfir komu hinna dönsku Hell's Angels til Íslands var. Bara einhverjir eldgamlir kallar á mótorhjólum, en nú átta ég mig á að kannski voru þeir með eitthvað óhreint í pokahorninu, sem þeir ætluðu að kenna íslenskum aðli í Kef.

8:10 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home