17 nóvember, 2005

Fundurinn gekk vel og um 60-70 manns mættu og þurftu margir að standa. Svör þingmannanna voru að vissu leyti fyrirsjáanleg, enda ekki tilgangurinn að fá að heyra eitthvað nýtt heldur að minna á að stúdentum er umhugað um menntun sína og stöðu.

Bjarni Ben (Sjálfst.fl.) og Jónína Bjartmarz (Framsóknarfl.) vilja skoða skólagjöld á framhaldsstiginu. Bjarni bætti við að það þyrfti að tryggja sjálfstæði skólans við inntöku nýrra nema (skiljist: fjöldatakmarkanir) og að hlutfall eldri nema hafi aukist mjög (skiljist: þau geta borgað). Þau eru ánægð með þróun mála og þykjast greina mjög mikla og góða breytingu í menntamálum undanfarin 10 ár. Háskólastefna Sjálfstæðisflokksins kristallast í stefnu menntamálaráðuneytisins en Framsóknarflokkurinn er ekki með stefnu í þessum málum, þótt Jónína útiloki ekki að hún verði mótuð. Hvorugur flokkurinn sér ástæðu til að hækka grunnframfærslu námslána, enda upphæðin að hluta til styrkur og taldi Bjarni muninn á framfærslugrunni LÍN og raunverulegri framfærsluþörf stúdenta vel rúmast í lögum sjóðsins (framf. einstaklings í leiguhúsnæði 124.000 kr vs hámarkslán 82.500 kr). Hvorugur flokkurinn telur að veita eigi stúdentakjör á heilbrigðisþjónustu og flokka eigi stúdenta með öðrum tekjulágum hópum.

Frjálslyndir eru á móti skólagjöldum, fjöldatakmörkunum og einsleitu námsvali. Þeim þykir ekki þörf á að hækka grunnframfærslu lána því endurgreiðslan er þungur baggi seinna meir. Þeim þykir ekki hægt að setja stúdenta undir sama hatt og aðra tekjulága hópa því námsmenn séu sundurleitur hópur. Sigurjón Þórðarson, fulltrúi Frjálslyndra lokaði síðan ræðu sinni með því að segja að fólk í Vöku, sem styður ekki skólagjöld sé hallærislegt ef það er í Sjálfstæðisflokknum, sem styður skólagjöld.

Katrín Júlíusdóttir (Samfylk.) og Kolbrún Halldórsdóttir (VG) eru algerlega á móti skólagjöldum og fjöldatakmörkunum. Katrín benti á að ekki væri hægt að ræða skólagjöld fyrr en búið væri að auka framlög á pari við samanburðarþjóðir. Báðum þykir eðlilegt að framfærslugrunnur LÍN verði lagaður að raunverulegri framfærsluþörf stúdenta. Kolbrún sló þann varnagla á að þó það ætti að vera hægt að taka fullt lán með fullri framfærslu (124 þús) þá ættu stúdentar að leitast við að komast af með sem lægst lán á námstímabilinu.
Báðir flokkar hafa mótað heildstæða stefnu um Háskólann og taldi Katrín Samfylkinguna hafa staðið sig vel á þinginu við að benda á vandamál hans. Kolbrún benti á að samræmi þyrfti að vera á milli menntastefnu og atvinnulífs. Um leið og verið er að leggja áherslu á háskólamenntun er verið að virkja og koma upp verksmiðjum sem krefjast verkafólks en háskólamenntað fólk er að sama skapi atvinnulaust. Þetta fer ekki saman. Varðandi stúdentakjör á heilbrigðisþjónustu taldi Katrín það mikilvægt að skoða það mál frekar og taldið það eiga við í sumum tilfellum og Kolbrún kvatti Stúdentaráð til að fara í viðræður við ríkið um það mál.

Áhugaverð spurning kom í umræðum í lokin er varðar hvernig stjórnmálamenn hugsa um LÍN. Því er alltaf hent fram að hluti lánsins sé styrkur þar sem að fyrir hverja 2 kr sem sjóðurinn lánar skila sér aðeins 1 kr tilbaka í ríkissjóð. Spyrjandinn, María Bjarnadóttir, benti réttilega á að þarna væri verið að tala um heildarmyndina yfir mörg ár en ekki einstaka lánþega, því þegar uppi er staðið þá borgar fólk almennt hverja einustu krónu til baka. Það er því ekki verið að tala um styrk til hvers og eins okkar persónulega heldur er verið að tala um kostnað sem ríkið leggur út fyrir til háskólastúdenta í heild sinni.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ja, sennilega svo pad er

12:32 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home