27 júní, 2006

SumarHlaða

Ég eyddi eitt sinn sumri við að róla mér í hlöðu í Reykholtinu. Þessu sumri eyði ég í annarri og örlítið stærri hlöðu. Hér er enga rólu að finna. Ég held að það væri góð hugmynd að setja rólur í Þjóðarbókhlöðuna ...eða trampolín! Þá væri að minnsta kosti örlítið meira spennandi að eyða dögunum hérna. Ljósi punkturinn er að þetta er versta sumar í Reykjavík í langan tíma.

Enskumælandi blaðið Grapevine gerði aldeilis atlögu að fyrrverandi forsætisráðherra vor í síðasta tölublaði. Mér þykir blaðið verða sífellt beittara. Það er kannski auðveldara að vera hreinskilinn á útlensku. Greinin um greiðslur Framsóknarflokksins til útlendinga, sem búsettir eru á Íslandi, í sveitastjórnarkosningunum vakti athygli mína.

Ég horfði viðtalið í Kastljósinu þar sem talað var við framkvæmdarstjóra flokksins (minnir mig) og Ólaf Hannibalsson, sem kom fyrstur fram með ásakanirnar. Framkvæmdarstjórinn vildi ekkert kannast við þetta og lét sem Valdimar væri eitthvað galinn. Og allt leit út fyrir að hann væri það greyið. En í fréttinni í Grapevine er sagan staðfest. Vinur blaðamannsins fékk borgað fyrir að keyra hann og konu hans á kosningaskrifstofu Framsóknarflokkins þar sem þau fengu góðan slatta af áróðri áður en þau voru keyrð á kjörstað. Eins og segir í greininni þá er þetta ekki ólöglegt en er alveg á grensunni. Kosningastjórn Framsóknarflokksins hefur líklega metið það sem svo að útlendingar kjósi síður en aðrir og viti síður um hvað kosningarnar fjalla þar sem aðgangur að efni á ensku er takmarkaður. Þannig er auðvelt að hafa áhrif á val þeirra og ekki síður þegar búið er að borga vinum þeirra fyrir að smala fyrir flokkinn.

Mér þykir þetta lágkúrulegt. Það er í lagi að standa fyrir átaki til að auka kosningaþátttöku Íslendinga af erlendum uppruna en þar sem Framsóknarflokkurinn hafði ekki svo mikið sem eitt kosningamálefni sem varðar þennan hóp þykir mér hæpið að það hafi verið tilgangurinn.

Af þessu má ef til vill draga þann lærdóm að upplýsingar til þeirra Íslendinga sem eiga ekki íslensku að móðurmáli eru takmarkaðar hvað varðar kosningar eins og svo margt annað. Ég vona að úr því verði bætt fyrir kosningarnar á næsta ári.

19 júní, 2006

Kvenréttindadagurinn


Búbbiræ! Nú hefur verið nóg að stússa og ekkert er netið á Nesi. Það er vonandi að verði betra veður á mánudag þegar við konur fögnum okkar degi. Ég var heldur sorgbitin þegar ég dróg fram vetrarúlpuna og klossana til þess að halda út í júníslagveður. Stundum er veðrið bara ekki sanngjarnt ...ekki verðið heldur ef út í það er farið!
Ég er byrjuð að skrifa um Evrópsku kynjajafnréttisstofnunina eins og ég hef kosið að kalla hana. Það verður að sjálfsögðu mikið meistarastykki. Ekki seinna vænna að sanna sig í þessu skóla sem ég þykist stúdera við. Fyndið þetta BA 'Bachelor of Arts' afhverju heitir þetta það?! Listapiparsveinn, ég verð listapiparsveinn í stjórnmálafræði með aukalistapiparsveinspróf í kynjafræði. Hver vill ekki ráða þannig konu í vinnu, ha?! Ég myndi ráða mig á stundinni. Sérstaklega eftir að hafa lesið listapiparsveinslokaverkið um evrópsku kynjajafnréttisstofnunina. Vonandi mun þetta allt leiða til einhvers nytsamlegs á endanum.

Ég var að enda við að lesa grein um jafnrétti og viðskipti eftir Lindu Dickens. Hún segir aðferð frjáls markaðar ekki vera fullnægjandi til þess að ná fram jafnrétti á atvinnumarkaði. Það er að segja, það er ekki nóg að setja ákvörðunina í hendur atvinnurekenda um hversu mikið jafnrétti ríkir. Markaðurinn stjórnast af öðrum hlutum en jafnrétti, réttlæti og fjölbreytileika og getur því ekki tekið á því. Auk þess sem þær ákvarðanir sem atvinnurekendur taka eru takmarkaðar við eitt fyrirtæki. Þess vegna verða tvo önnur verkfæri að koma til. Annars vegar lagasetning, sem hefur algild áhrif á alla atvinnurekendur og táknrænt gildi. Hins vegar félagsleg stjórnun eins og til dæmis samningar verkalýðsfélaga við atvinnurekendur. Dickens leggur til að verkalýðsfélög taki upp samningatækni sem hefur jafnrétti að markmiði. Hún kallar þessar þrjár aðferðir 'þrífótinn', og segir að þær eigi að nota samhliða. Atvinnurekendur sjái hag sinn í því að auka jafnrétti, það sér tryggt með lagasetningu sem tekur jafnt til allra atvinnurekenda og hefur táknrænt gildi ásamt því að verkalýðsfélögin þrýsti á frekari breytingar í jafnréttisátt. Hljómar ekki svo vitlaust. Ég veit ekki hver staðan er á verkalýðsfélögum á Íslandi í jafnréttismálum en það er búið að skipa nefnd sem mun fara yfir lögin um jafnan rétt karla og kvenna. Vonandi verða lögin bætt. Ég hef ekki mikla trú á sjálfstæðri þróun í jafnréttismálum. Allir landvinningar í þeim efnum hafa orðið eftir mikla baráttu og ég spái því að þannig verði það áfram um sinn.