27 júní, 2006

SumarHlaða

Ég eyddi eitt sinn sumri við að róla mér í hlöðu í Reykholtinu. Þessu sumri eyði ég í annarri og örlítið stærri hlöðu. Hér er enga rólu að finna. Ég held að það væri góð hugmynd að setja rólur í Þjóðarbókhlöðuna ...eða trampolín! Þá væri að minnsta kosti örlítið meira spennandi að eyða dögunum hérna. Ljósi punkturinn er að þetta er versta sumar í Reykjavík í langan tíma.

Enskumælandi blaðið Grapevine gerði aldeilis atlögu að fyrrverandi forsætisráðherra vor í síðasta tölublaði. Mér þykir blaðið verða sífellt beittara. Það er kannski auðveldara að vera hreinskilinn á útlensku. Greinin um greiðslur Framsóknarflokksins til útlendinga, sem búsettir eru á Íslandi, í sveitastjórnarkosningunum vakti athygli mína.

Ég horfði viðtalið í Kastljósinu þar sem talað var við framkvæmdarstjóra flokksins (minnir mig) og Ólaf Hannibalsson, sem kom fyrstur fram með ásakanirnar. Framkvæmdarstjórinn vildi ekkert kannast við þetta og lét sem Valdimar væri eitthvað galinn. Og allt leit út fyrir að hann væri það greyið. En í fréttinni í Grapevine er sagan staðfest. Vinur blaðamannsins fékk borgað fyrir að keyra hann og konu hans á kosningaskrifstofu Framsóknarflokkins þar sem þau fengu góðan slatta af áróðri áður en þau voru keyrð á kjörstað. Eins og segir í greininni þá er þetta ekki ólöglegt en er alveg á grensunni. Kosningastjórn Framsóknarflokksins hefur líklega metið það sem svo að útlendingar kjósi síður en aðrir og viti síður um hvað kosningarnar fjalla þar sem aðgangur að efni á ensku er takmarkaður. Þannig er auðvelt að hafa áhrif á val þeirra og ekki síður þegar búið er að borga vinum þeirra fyrir að smala fyrir flokkinn.

Mér þykir þetta lágkúrulegt. Það er í lagi að standa fyrir átaki til að auka kosningaþátttöku Íslendinga af erlendum uppruna en þar sem Framsóknarflokkurinn hafði ekki svo mikið sem eitt kosningamálefni sem varðar þennan hóp þykir mér hæpið að það hafi verið tilgangurinn.

Af þessu má ef til vill draga þann lærdóm að upplýsingar til þeirra Íslendinga sem eiga ekki íslensku að móðurmáli eru takmarkaðar hvað varðar kosningar eins og svo margt annað. Ég vona að úr því verði bætt fyrir kosningarnar á næsta ári.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

(varðandi síðustu færslu) Þú manst líka hvað hún Anne Philips sagði > full jafnrétti væri ekki náð fyrr en vanhæf kona er í stjórnunarstöðu ;)

9:59 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

what up ... no blog for a long time .. how is the ritgerðs góin?

or is it góin at all?

1:49 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home