26 nóvember, 2006

Mömmuhelgi

Mamman mín og Snorri, litli bróðir hafa eytt helginni með okkur hér á Östbane. Ég fór á Kastrup á fimmtudagskvöldið til þess að taka á móti þeim. Áður en mamman komst í gegnum tollhliðið var allt komið í handapat frammi á gangi, því þar fékk maður hjartaáfall. Það voru frekar óhugnalegar mínútur þar sem aðstandendurnir hrópuðu á hjálp og reyndu að gera hjartahnoð án þess að vita hvað þau væru að gera. Ég hringdi náttúrulega bara í mömmu, eins og maður gerir þegar það eru vandræði, og hún kom hlaupandi út. Þannig hittumst við aftur eftir tveggja mánaða aðskilnað. Sjúkraflutningamenn komu fljótlega og við gátum byrjað helgarferðina.

Ég fann bara tvær myndir af okkur þremur. Teknar með tíu ára millibili:


Eva, Mamman og Snorri 1996

Frá því að litli bróðir kom til Danmerkur hefur hann keypt sér tölvuleik og spilað tölvuleik. Þetta er agalega spennandi tölvuleikur ef marka má einbeittan svip unga mannsins. Hann hefur reyndar líka kíkt í Tívolí en fékk fljótlega í magann eftir allt nammið sem hann hafði torgað. Hann fór líka í sund í DGI byen, en stuttbuxurnar sem ég hafði gefið Styrmi í afmælisgjöf reyndust of víðar til þess að taka þá áhættu að stökkva af stökkbrettinu. Stóra systir bauðst til þess að koma með honum á brettið en hætti við eftir skarpa athugsemd um að hún væri í bikini, sem myndi að öllum líkindum verða eftir í pollinum ef hún stykki. Og ekki viljum við verða sundfatalaus. Það voru ákveðin vonbrigði (fyrir það okkar sem þykir gaman að henda sér fram af hlutum).

Örlítil seinheppni hefur einkennt ferðalagið. Í bæjarferðinni týndist innkaupapoki. Það var svekkjandi og stressaði gestgjafinn fór í mínus. En sem betur fer var mamman að ljúka námskeiði í einhverju (eins og hún gerir gjarnan) sem gerði það að verkum að hún setti allt í víðara samhengi. Það er allt í lagi að týna hlutum sem hægt er að endurheimta - fara bara í næstu búð og ná í nýtt. Hugsaðu þér ef eitthvert okkar hefði týnt heilsunni eða lífinu? Það verður ekki tekið aftur. Nei, hugsaði ég, það verður ekki tekið aftur. Mamman er snjöll, hún má eiga það.

Á leiðinni frá matarbúðinni, með tvo troðfulla poka af mat og víni, datt eggjabakkinn í götuna. Eitthvað týpískt fyrir seinheppnina. Fyrst karlinn á flugvellinum, síðan innkaupapokinn og nú eggin. Langar manni þá ekki bara að öskra og sparka í eitthvað. Nei, maður setur hlutina í samhengi, er meðvitaður. Þetta skiptir engu máli og við kaupum bara fleiri egg. Þetta verður eins og mantra.

Snorri, Mamma og Eva 2006

Það er þó ekki allt í pati í helgarferðinni. Það var svolítið gaman að tísta og hlæja með mömmu í mátunarklefanum í fínu búðinni. Maturinn á Reef n'Beef var einstaklega góður og Tívolíð er fallegt og rómantískt í jólabúningnum. Ekki spillti rússibaninn fyrir (fyrir það okkar sem þykir best að hafa magann uppi í vélindanu).

Nú var verið að ljúka við sunnudagsbrunchinn og halda skal út á vit ævintýranna á Österbro. Sunnudagsbíó í sjónvarpinu í kvöld og alveg áreiðanlega popp og súkkó með'ví. Hugge, hugge, hugge ...

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er mögnuð byrjun á helgarferðinni: "Ofurhetju-mamma, hjartaáfall við næsta gang! Snögg, bitte schön!"

Svo hefur maður ekki séð Snorra í hva, fjögur ár. Skrýtið að sjá hann sem ungling allt í einu (hann er allavega með húfu, klassískt unglingamerki).

6:13 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

magnað - já víðara samhengi það er mjög magnað ....maður veðrur að temja sér það ...

1:54 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

En skemmtilegt tívolí, sjopp og tölvuleikir.
En kom ÓliRínu með þeim út líka?
Marta

2:12 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

haha! Já, hann skellti sér bara með í helgarferð með mömmunni.

Nei, þetta er mynd frá því í afmælinu hans Stymma í sumar. Ég er svo löt við að taka myndir að ég á bara tvær af okkur fjölskyldunni.

2:25 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home