30 október, 2006

Justin Timberlake, Cosmopolitan og Sagan af Macropoulos

Ekkert lát hefur verið á afmælishátíðinni í Köben síðan hún hófst klukkan fimm, stundvíslega, á laugardag. Hér kemur sagan af afmælishátíðinni 2006.

17:00 - Östbanegade, fáklæddur afmælissöngur með gítarspili og formleg pakkaafhending.

Afmælishátíðin var sett með pompi og prakt á slaginu fimm með pakkaafhendingu, eins og ráð hafði verið gert fyrir. Elvis /Bond þema í skreytingum. Afmælisbarninu skipað að fara í sitt fínasta púss.

18:00 - Sushi, kjóll og hvítt

Hvítvín sötrað með uppáhalds mat afmælisbarnsins, sem nú var komin í kjólinn og hælana, hafði sett á sig maskara og var til í allt.


19:00 Cosmo í hópi góðra vina

Keyrt á hótel D'Anglaterre í einn Cosmo fyrir kvöldið. Nágrannarnir á næsta borði 200 kg svartir karlmenn á Jordan náttfötum. Þar sem þeir lágu makindalega í leðursætunum voru þeir ekki alveg í stíl við "Holt-stemmninguna" en brátt kom í ljós hverra manna bollurnar væru. Inn trítlaði nettur, lítill maður með Guevara derhatt. Hann staldraði við í dyrunum til þess að hleypa fólki fram hjá. Með honum var ung kona, líka á náttfötum. Hvað er málið með Kana og náttföt hugsa ég. Litli maðurinn röltir fram hjá borðinu okkar og heilsar bollu-vinum sínum. Styrmir starir á hann stutta stund og segir svo "Er þetta ekki Justin Timberlake". Réttir svo upp höndina og nikkar til litla mannsins. "Jah, það skyldi þó aldrei..." Sagði ég þá og dreypti á kokteilnum.

20:00 Sagan af Macropoulos og hvítvín með klaka

Uppi á fjórðu svölum var gott útsýni yfir bæði sviðið og um 2000 áheyrendur. Þegar við komumst loks upp alla stigana var 100 manna hljómsveit byrjuð að spila í gryfjunni og tjaldið við það að hífast upp. Leigubílstjórinn sem pikkaði okkur upp fyrir framan hótelið hafði verið svo elskulegur að keyra á móti einstefnu til þess að koma okkur alla leið upp að tröppunum á nýju óperunni á Holmen. Hann hélt líklega að við værum eitthvað fyrst við stormuðum út af dýrasta hóteli bæjarins, eins og við ættum eitthvert erindi þangað. Á móti blasti Amalienborg, upplýst í kvöldkyrrðinni. Óperan var dásamleg og liðu þrír klukkutímar hangandi utan á fjórðu svölum eins og fimm mínútur.

23:00 Pollahopp og salsadans

Við óperuna er engin undankomuleið nema með óperustrætó. Við biðum úti í þykkum úða í dágóðastund þar til hressasti strætóbílstjóri norðan alpafjalla birtist. Sagði hann viðstöðulaust brandara í hátalarakerfið, sem skapaði góða stemmningu í rökum bílnum. Þegar út var komið tók við meiri rigning og fleiri pollar. Málning niður á kinnar og blautar tær. Nú skyldi dansa salsa. Eins og tíðkast á salsadansstöðum er lagt blátt bann á yfirhafnir inni á staðnum. Svo maður má byrja á því að klæða sig úr spjörunum í anddyrinu. Fyrir innan tók við seiðandi tónlist og fullt dansgólf að trylltum dansi. Allir nýkomnir af námskeiði. Þar sem hvorugt okkar dansar salsa var byrjað á barnum, sest aðeins niður og spáð í spilin. Að drykknum loknum var hlaupið hugrekki í menn og nokkur vel valin spor tekin á gólfinu. Eitthvað sem líktist ef til vill á einhvern hátt kannski salsadansi en var það augsýnilega ekki ef marka má augngotur salsasnillinganna í kring. En það skipti ekki svo miklu máli á þessum tímapunkti.

01:00 Hip hop og Jazz - fjölbreytni er málið

Eftir afrek dansgólfsins var leitað á önnur mið inni á Mambo Club. Þar mátti einnig finna hip hop senu með dj ekki svo ólíkum bollunum á D'Anglaterre og sveittum unglingum í trylltum mjaðmadansi. Í það skiptið létum við okkur nægja að fylgjast með úr fjarlægð. Stungum frekar saman nefjum og fórum á trúnó. Það er eitthvað heilög stund á djamminu.
Næsti staður var ekki langt undan. Á La Fontaine, elsta jazzklúbbi Kaupmannahafnar var live gigg í gangi. Við gátum troðið okkur út í eitt hornið og hlýtt á jazz í hæsta klassa fram á rauða nótt. Það varð punkturinn yfir i-ið.


04:00 Baunir eiga alltaf við

Af hverju að kaupa eitraðan Kebab af sveittri búllu þegar það er hægt að gera dýrindis baunarétt í eldhúsinum heima? Hér er uppskriftin:

1 dós baunir (t.d. nýrnabaunir, black eyed peas eða kjúklingabaunir)
1 dós niðursoðnir tómatar
1 slumma hnetusmjör (ekki of mikið samt)
Dass af karrýi (steikja það fyrst í olíunni með grænmetinu og baununum)
1 laukur
1 hvítlauksrif
1 paprika
Smá brokkolí
Ferskur chilligaur eða chillimauk
Lúka af rúsínum

Meget godt!

Svo fóru þreyttir en sáttir afmælishátíðargestir að sofa á sínu græna eyra fram að næsta dagskrárlið helgarinnar. Framhald síðar.

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Til hamingju með afmælið vinkona!

9:08 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

takk fyrir :)

8:02 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

CONGRATZ!!!! :o)

skemmtilegur dagur - sorry ég meina - skemmtileg hátíð!!!

*eitt skot - það er sko ekki hægt að gera svona mikið skemmtilegt á svona hátíðum hérna á Íslandinu - ég er alveg farin að halda að Danmörk sé málið*

5:41 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Hey veistu hvað er nýjasta nikkið hans JT á íslandi???

Bar´í Vatnaskógi :o)

10:00 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home