10 október, 2006


Það er ótrúlega mikið af lágum gluggum í Kjuben. Eitthvað sem mér þykir ótrúlega spennandi sem ástríðufullur gluggagægir. Þegar ég labba um götur er ég undantekningalaust að góna inn um gluggana um leið og geng fram hjá þeim. Ég sé svo margt skemmtilegt sem kemur ímyndaraflinu á flug. Til dæmis þegar ég geng heiman frá mér út í hraðbankann nokkrum hornum neðar.

Húsið við hliðina á okkar er kollegí en ekki fyrir sótsvartan almúgan heldur eitthvað sem minnir frekar á heimavist fyrir heldri borgara. Þegar sótt er um þarf að láta ferilskrá fylgja með umsókninni og þarna er eldhús sem býður upp á máltíð þrisvar á dag. Þetta er einhvers annars eðlis heldur en hjá honum Rassa Nílsen á Amager. Allt þetta er staðfest þegar rýnt er inn um gluggana að kvöldlagi. Í nánast hverri íbúð má sjá útúrstílereseruð loftljós - og við vitum öll hvað það þýðir.

Aðeins neðar í götunni geng ég fram hjá skringilegu komplexi sem virðist frekar vera ódýrt hótel á Kanarí en Kaupmannahafnarhús. Svalirnar eru yfirbyggðar og utan á hanga pottablóm í alls kyns litum. Neðsta horníbúðin hefur vakið sérstaka athygli mína. Stofan er bleik. Þetta þótti mér undarlegt og velti því fyrir mér hvers konar manneskja byggi þarna. Í kvöld stóð svo miðaldra, síðhærður karlmaður á svölunum og reykti. Það er engin leið að vita ....

Á hornin á Jens Mons götu og Strandboulevarden, sem ég geng, er skemmtileg píanóbúð. Í sama húsi sé ég inn um spennandi glugga. Maður situr inni í tiltölulega stóru herbergi og skrifar. Veggirnir í herberginu er þaktir frá gólfi upp í loft af bókum ...eða plötum ...eða bæði, ég þorði ekki að rannsaka það nánar.

Þá er ég nánast komin í hraðbankann. Á horninu á móti er Pizzeria. Opnunartímarnir eru meira eftir hentisemi eigandans og síðustu helgi var lokað á meðan landsleikurinn milli Danmerkur og Norður-Írlands fór fram í Parken.

Á heimleiðinni geng ég eftir hinni hlið Boulevardsins af einskærri forvitni um nágranna mín þeim megin. Við hliðina á lítilli sjoppu er skrýtin, einskonar "lífstílsbúð" sem inniheldur föt, skartgripi, glös og vekjaraklukkur. Við fyrstu sýn virðist þetta vera eitthvað kúl en þegar betur er gáð má sjá heimagerð hekluð hárbönd skreytt með hnöppum og kjól alveg eins og hún Mína Mús átti forðum. Mér dettur helst í hug að búðin sé eitthvað á vegum Danmarks Designskole sem er einmitt næsta hús.

Inn um gluggana á skólanum sé ég vinnustofur á mörgum hæðum. Þegar komið er myrkur sjást vígalegir keramikofnar, tréverkstæði og mannháar borvélar. Ég sem hafði séð fyrir mér hönnunarnema sem fólk í gulrótabuxum með topp í augunum að skoða Wallpaper og "skapa" eitthvað.

Þá er ég komin heim aftur. Gluggarnir í húsinu mínu er svo efni í alveg nýja sögu.

5 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hæ eskan, skemmtileg færsla. Get einmitt sagt frá thví ad ég á helling af vinum á thessu heldra kollegi og madur tharf nú bara ad vera Svíi eda Nordmadur, thá er madur pottthéttur inni.

Annars verd ég ad vidurkenna ad ég er ordinn svo mikill Dani ad ég er farin ad svitna undan thví ad vita ekki hvort innflutningspartýid er á føstudaginn eda laugardaginn?? Verid ad planta aftale-um thú veist...

Heyri í thér
Hrefna

7:37 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

sko þetta finnst mér góð saga - vonandi sérðu inn um glugga nágranna þinna sem tala svo mikið - og vonandi er eitthvað spennandi þar inni :)

vá hvað það væri skemmtilegt

"ég lif´í draumi.... "

1:15 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

hæbb, leitt að komast ekki í heimsókn á laug.

en símanr. og msn-fangið er á síðunni minni, bara help your self :)


ps. það var að renna upp fyrir mér að það gæti hafa verið Stymmi sem hjólaði fram hjá mér á Strandboulevarden um daginn og kallaði "blesaar!" ... ég sá það ekki alveg ... þið bæði greinilega alltaf að flýta ykkur :P

10:13 e.h.  
Blogger styrmir said...

Það var ekki ég, ég hefði sagt "komdu sæll Halli".

9:38 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

hmmm... kannski var þetta bara einhver grínisti :P

ég man bara að hann var örlítið skeggjaður ... þannig að ef þið sjáið íslending, - nei annars, þeir eru kannski fleiri en tveir.

8:50 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home