30 mars, 2007

Stjórnmáladagur í næstu viku

Endilega kíkið við!
--------------------------
„Jöfn og frjáls"
Stjórnmáladagur Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík

Miðvikudaginn 4. apríl kl. 17-20
í Gamla Landsímahúsinu við Austurvöll
Skráning hjá ujr@samfylking.is

Dagskrá
Jón Ásgeir Sigurðsson, verkefnastjóri
„Stjórnmálaviðhorfið"

Reynir Harðarson, hönnunarstjóri og stofnandi CCP hf, frambjóðandi Samfylkingarinnar
"Forsendur nýsköpunar á Íslandi"

Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og frambjóðandi Samfylkingarinnar
„Kapítalismi og jafnaðarstefna"

Guðmundur Steingrímsson, blaðamaður og frambjóðandi Samfylkingarinnar

Katrín Júlíusdóttir, þingkona og frambjóðandi Samfylkingarinnar
„Framkoma og ræðumennska í stjórnmálum"

Boðið verður upp á léttar veitingar og um kvöldið haldið útgáfuteiti kosningablaðs Ungra jafnaðarmanna.

23 mars, 2007

Íslandsblogg


Komin til Íslands og hef ekki gert margt annað en að kynnast nýja vinnustaðnum. Það hefur verið nóg að gera við að setja sig inn í stjórnmála- og kosningaheiminn eftir rúmlega hálfs árs útlegð. Þetta verður skemmtilegt, áhugavert, mikil reynsla, mun reyna á þolrifin, en vonandi á endanum árangursríkt.

Ég hef ekki gert upp við mig hvort mig langi að blogga meðan ég er á landinu, þar sem forsenda þess er eiginlega brostin. Kannski að ég hendi inn auglýsingum um viðburði og stríðssögum úr baráttunni.

Ef þið eruð að deyja úr forvitni um líf mitt þá er ég með gamla númerið mitt, kem til með að búa með ljúflingnum Önnu Pálu á Reynimelnum og verð með skrifstofu í gamla Landsímahúsinu til að byrja með.

20 mars, 2007

Í drullufjölskyldustuði

Þá hef ég safnað kröftum í nýja bloggfærslu eftir annasama viku í faðmi fjölskyldunnar hér í Danmörku. Marta Má kom, sá og sigraði í drullustuði hér í Kjuben. Við drukkum rauðvín, borðuðum mat, versluðum hellingshelling, leystum próf, fórum í áttræðisafmæli, skoðuðum Louisiana safnið og dönsuðum af okkur skónna á Idealbar með Goða og týnda syninum, Trausta.

Idealbarsferðin reyndist afdrifarík, því ég týndi símanum mínum. Þar sem ég bý í landi vesens gat ég ekki farið og sótt hann á barinn í gær, heldur var hann sendur til lögreglunnar í Vanlöse (!), en þar svarar bara símsvari sem talar amerísku.

Á barnum vorum við mágkonurnar í góðri sveiflu, en ég sveiflaði aðallega afríkumönnum. Þess á milli leitaði ég að Styrmi, sem oftar en ekki var beint við hliðina á mér. Í eitt skiptið stóð hann fyrir aftan mig svo ég stormaði þvert yfir dansgólfið í örvæntingafullri leit, fékk aðstoð tveggja afríkumanna til að standa upp á stól svo ég gæti komið auga á Styrmi, sem stóð að sjálfsögðu pollrólegur á sama stað og ég skildi við hann og vinkaði mér. Þá létti mér óskaplega við að hafa fundið hann aftur.

Ég kem á morgun og byrja í nýja starfinu mínu hjá Samfylkingunni. Ég verð í tæpa tvo mánuði á landinu. Flýg aftur heim þann 13. maí til þess að ná fluginu mínu til Kúbu þann 15. maí.

Hlakka til að sjá ykkur!

15 mars, 2007

Á leið heim

Ég kem heim á miðvikudaginn.

08 mars, 2007

Áfram stelpur! óle óle óle....

Í dag er alþjóðlegur kvennadagur. Við stelpurnar í vinnunni óskuðum hver annarri til hamingju og fengum okkur köku í tilefni dagsins. Allar í hátíðarskapi. Mamma sendi mér sms sem sagði mér að ég væri engill og ég sagði að hún væri englamamma. Af hverju eru ekki allir daga kvennadagar?

Nú skulum við hugsa til allra kvennanna í heiminum. Þeirra sem berjast fyrir lífi sínu undir stríðsástandi, hungursneyð, heimilisofbeldi, mansali ... Hugsum líka til kvennanna sem helga lífi sínu að hjálpa þeim. Hugsum til brautryðjenda, stjórnmálakvenna og allra femínistanna sem eiga sér draum um betri heim fyrir konur. Hugsum til stelpnanna og vonum að þær muni lifa það að sjá betri kvennaheim í framtíðinni. Að lokum skulum við hugsa til þess hversu hart hefur verið barist fyrir réttindum okkar, hversu gott við höfum það og hversu mikið við höfum að gefa.

og svo uppskrift að forrétti í tilefni dagsins. Þetta er mjög góður réttur og hann lítur vel út á diskunum. Svo er líka gaman að borða hann því maður þarf að nota hendurnar.

Ætilþistlar með blóðappelsínusósu / EE
1 ferskur ætilþistill á mann
2 sneiðar sítróna

Sósa:
1 blóðappelsína
175 g smjör
2-3 tsk sítrónusafi
3 tsk vatn
salt og pipar
3 eggjarauður

Ætilþistlarnir eru skornir þannig að þeir geti staðið sjálfir. Þeir eru síðan soðnir í potti með vatni, smá salti og sítrónusneiðunum. Helst á að láta þá standa rétt í pottinum og þeir eru soðnir þar til að það er auðveldlega hægt að rífa blað af (u.þ.b. 20-25 mín)
Fyrir sósuna er börkurinn rifinn af appelsínunni og 2-3 matskeiðar af safa kreistur úr henni. Smjörið er brætt í pott. Sítrónusafanum, salt og pipar er blandað saman við vatnið í skál sem er sett yfir vatnsbað (passa að skálin snerti ekki vatnið). Hræra þar til orðið heitt. Eggjarauðurnar hrærðar út í sítrónuvatnið. Síðan er heitu smjörinu bætt út í og hrært stanslaust á meðan. Hrært þar til að þykk sósa myndast. Að lokum er appelsínuberkinum og safanum bætt út í og smakkað til etv. bæta við salti, pipar og sítrónusafa ef þarf.
Ætliþistlarnir eru þurrkaðir vel og látnir standa á disk með lítilli skál af sósu við hliðina á.

06 mars, 2007

Jarðaber og súkkulaði á Kúbu

Styrmi segist líða eins og piparmyntu þegar hann fer í grænu skyrtuna og drekkur piparmyntute. Síðan raular hann lágt á því sem hann heldur að sé franska meðan hann leysir prófverkefnið sitt.

Smá heimilismóment fyrir áhugasama lesendur Aldingarðsins.

Það hefur verið kátt á hjalla síðan Östbanebóndinn snéri aftur heim. Furðumatur á Fox hótel, óskarsverðlaunamyndin "Das Leben der anderen", tveir flugmiðar til Kúbu og upphitun með "Freza Y Chocolate" kúbanskri, contróversíal mynd um samkynhneigð undir kommúnisma. Meira gert á þremur dögum heldur en á síðastliðnum tveimur vikum.

Kokkurinn nýráðni kokkaði og kokkaði alla helgina. Starfsheitið upp á frönsku er 'sous-chef' ...maður verður að hafa frönskuna á hreinu í eldhúsinu. Allt skinn er farið af kjúkunum en aðeins einn þumall illa skorinn. Hægri lófa var bjargað frá skaðbruna með snörum handtökum. Skemmtilegast er að búa til pönnukökudeig. Leiðinlegast að skera ananas. Ég á eftir að spreyta mig á eplakökunni en ég á að koma með mína eigin uppskrift. Ertu með eina á takteinunum?

Á meðan ég starfa sem sous-chef ætla ég að birta uppskrift með hverri færslu (sjáum hvernig ég endist). Ég gef E fyrir erfiðisstig, þar sem E er auðvelt, EE er frekar mikið bras og EEE er flókið, dýrt og tímafrekt.

'Hachala' - arabískur þorskréttur/E
smá kúskús
1 græn paprika
1/2 dolla svartar ólífur
1 bakki sveppir
2 hvítlauksgeirar
nokkrar rúsínur
smjör
1 sítróna
400 gr þorskur (flök)
gratínostur
tómatur

Látið þorskinn liggja í sítrónusafa. Bleytið í kúskúsinu með soðnu vatni og setjið olíu og sítrónusafa út á þegar tilbúið. Steikið papriku í smá stund á hægum hita. Bætið við sveppum, hvítlauk, ólífum, rúsínum. Leyfið þessu að malla og bætið síðan kúskúsinu við þegar tilbúið. Gott að setja smá smjer með líka. Setjið í fat. Steikið því næst þorskinn og látið ofan á kúskúsið í fatinu. Gratínostur yfir og tómatar efst. Grillið í ofni og voilá!

02 mars, 2007

Vel vakandi og almennilegt fólk

Ég hef nýfengið áhuga á Velvakanda Morgunblaðsins. Mér þykir þessi litli afmarkaði kassi í blaðinu ómetanlegur. Athugult og vel vakandi fólk hugsar upphátt á síðum blaðs. Þetta er næstum því eins og að blogga - forveri bloggsins líklega. Nú er það orðið krúttlegt og klunnalegt eins og segulbandstæki við hliðina á ipod.

Í dag skrifar "einn sem vill betri myndir". Hann er ósáttur við gæði myndanna sem sýndar eru á föstudags og laugardagskvöldum á Rúv. Hann og fjölskylda hans áttu ekki til orð yfir myndunum tveimur sem sýndar voru síðasta föstudag og ekki voru þær skárri á laugardaginn. Það var ekki fyrr en upp úr hálfeitt, þegar allir voru farnir að sofa nema húsbóndinn, að almennileg mynd hófst. Ég verð að segja að með svona bíófjölskyldu, þá dugir nú ekki að sýna hvað sem er.

Stefán Guðmundsson spyr hvort West Ham sé nýtt Stoke grín. Það er ekki nema von að hann spyrji, enda alveg arfavitlaus út í Eggert og hefur þungar áhyggjur af því að íslensku prestarnir sem fóru á leik West Ham um daginn hafi misst trúnna.

Síðasta vel vakandi manneskjan sem skrifaði í dag, "ein áhyggjufull", gerði mig reyndar eilítið dapra. Gamla konan hafði svo miklar áhyggjur af virkjunum og álverum að hún sagði það hækka blóðþrýstinginn hjá sér. Hún grætur yfir þessu. Barnabörnin hennar flýja land hvert á fætur öðru og svo eru bændur á móti þessu. Jah, sei sei. Mig langar helst að fljúga til Íslands og knúsa hana.