02 mars, 2007

Vel vakandi og almennilegt fólk

Ég hef nýfengið áhuga á Velvakanda Morgunblaðsins. Mér þykir þessi litli afmarkaði kassi í blaðinu ómetanlegur. Athugult og vel vakandi fólk hugsar upphátt á síðum blaðs. Þetta er næstum því eins og að blogga - forveri bloggsins líklega. Nú er það orðið krúttlegt og klunnalegt eins og segulbandstæki við hliðina á ipod.

Í dag skrifar "einn sem vill betri myndir". Hann er ósáttur við gæði myndanna sem sýndar eru á föstudags og laugardagskvöldum á Rúv. Hann og fjölskylda hans áttu ekki til orð yfir myndunum tveimur sem sýndar voru síðasta föstudag og ekki voru þær skárri á laugardaginn. Það var ekki fyrr en upp úr hálfeitt, þegar allir voru farnir að sofa nema húsbóndinn, að almennileg mynd hófst. Ég verð að segja að með svona bíófjölskyldu, þá dugir nú ekki að sýna hvað sem er.

Stefán Guðmundsson spyr hvort West Ham sé nýtt Stoke grín. Það er ekki nema von að hann spyrji, enda alveg arfavitlaus út í Eggert og hefur þungar áhyggjur af því að íslensku prestarnir sem fóru á leik West Ham um daginn hafi misst trúnna.

Síðasta vel vakandi manneskjan sem skrifaði í dag, "ein áhyggjufull", gerði mig reyndar eilítið dapra. Gamla konan hafði svo miklar áhyggjur af virkjunum og álverum að hún sagði það hækka blóðþrýstinginn hjá sér. Hún grætur yfir þessu. Barnabörnin hennar flýja land hvert á fætur öðru og svo eru bændur á móti þessu. Jah, sei sei. Mig langar helst að fljúga til Íslands og knúsa hana.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home