26 janúar, 2006

Skólabækur komnar í hús - tjekk!
Skólabækur lesnar - hmmm...
Búin að horfa á "Big Chill" - tjekk!
Búin að láta sjá mig í skólanum - tjekk!
Búin að sjá fáránlega flotta Röskvuplakatið - tjekk!
Allir kjósa Röskvu 8. og 9. febrúar - tjekk!

Það er ótrúlega góð stemmning að vinna í miðbænum. Bílastæði eru reyndar af mjög skornum skammti og ég er farin að leggja svo langt í burtu að ég er í raun að labba hálfa leiðina að heiman. Tek það fram yfir sektabúnkann minn.

16 janúar, 2006

10/11, Söbbvei og Nonnabiti

Röskva er komin með kosningamiðstöð í Austurstrætinu í sama húsi og Kaffi París og sjoppan London. Okkur þótti því við hæfi að gefa henni nafnið Róm. Róm er einstaklega hugguleg og rómantísk kertastemmning hefur verið yfir helgina. Það var óformleg-mini-foropnun í gærkveldi sem heppnaðist vel. Eitt Röskvulag var frumflutt af stúlknakór og nokkrir slagarar teknir í kjölfarið.

Kosningarnar er einn mest spennandi tími ársins. Þær gera janúar funheitann eins og sólarströnd og það er alveg hægt að slökkva á þunglyndislampanum næstu vikur. Í byrjun febrúar verður allt á suðupunkti og 8. og 9. febrúar verða kraumandi eins og steikingarfeitin sem kokkaði franskarnar mínar á Nonnabitum í dag.

Það hefur þó vissa vankanta í för með sér að vera í miðbænum umkringdur skyndibita. Eftir tvær ómáltíðir í dag mun ég setja skýra heilbrigðisstefnu um hollt nesti og stigaklifur upp á fimmtu. Ræt. Maður á samt alltaf að hafa háleit markmið!

09 janúar, 2006

Mareneruð mannslifur

Ansi er maður öflugur þess dagana. Það eru 7 dagar eftir af alls 4 vikna fríi og ég get ekki beðið eftir að því ljúki.

Helgin bauð upp á Röskvuferðalag, þar sem "Hjálpum þeim" í karíókíútgáfu var tekið 70 sinnum og nýtt Röskvulag samið. Á laugardaginn hélt afi gamli upp á 75 ára afmæli. Það endaði í ansi hreint mörgum rauðvínsglösum og skrautlegri bæjarferð eftir partý með flugbjörgunarsveitinni. Go afi! (hann fór samt ekki með). Til þess að bæta upp fyrir ómenningarástandið fór ég á hámenningarlega Vínartónleika í Óperunni í gærkvöldi. Það var frekar erfitt að sofna ekki en það slapp fyrir horn. Missti bara af allra síðustu tónunum. Þetta voru fínustu tónleikar og gaman að sjá fólk á manns eigins aldri spila klassíska mússík.

Þessa dagana mæli ég með lifrarhvíld - það er mjög nauðsynlegt að gefa lifrinni nokkurra daga hvíld milli þess sem hún er mareneruð í áfengislegi. Skorpulifur fyrir þrítugt er frekar vandræðalegt ástand.

04 janúar, 2006

Áramótamyndir komnar


Ólíkt mörgu bölsýnisfólki þá þykir mér ógeðslega gaman á áramótunum. Þau hafa aldrei klikkað, því allt frá því að ég fór að stunda partý hef ég eytt þeim með sama fólkinu. Og fólkið klikkar ekki. Múgur manns lagði leið sína í Ástríði, sumir stoppuðu stutt, aðrir hvíldu augun aðeins fram á nýársmorgun. Það er allt leyfilegt á gamlárskvöld. Ég setti inn nokkrar myndir af kvöldinu.

Einu áramótin sem ég hef haldið erlendis voru ekki síðri. Ég flutti inn til nýrrar fósturfjölskyldu í Frakklandi á gamlársdag og um kvöldið var veisla með allri stórfjölskyldunni. Hver fjölskylda hafði fengið úthlutað landi sem það átti að túlka á einhvern hátt. Mín fjölskylda fékk reyndar ekki land heldur "svörtustu Afríku", svo ég endaði fyrsta kvöldið mitt hjá nýrri fjölskyldu klædd laki og með koddaver á hausnum, spilandi á bongótrommu undir fagran frumskógarsöng þessa ókunnuga fólks. Að sjálfsögðu var þetta upphafið að góðri vináttu.