09 september, 2006

Mini búslóð

Þá hefur Aldingarðurinn verið færður enn og aftur um set. Má finna paradísina í Laugarnesinu fram að mánaðarmótum. Það sem eftir lifir vetrar verður hún ekki lengur á færi Íslendinga að heimsækja, nema þeir leggi land undir fót.

Sjaldan hef ég lent í leiðinlegri flutningum en þessum, þótt margir hafi verið. Ekki var hægt að henda draslinu í kassa og taka það upp aftur á nýjum stað heldur þurfti ég að skoða hvern einasta hlut og velta fyrir mér tilfinningalegu gildi og efnislegri gagnsemi í ófyrirsjáanlegri framtíð. Fór ekki betur en svo að á síðasta degi var enn talsvert eftir sem fékk að fjúka í tunnuna. Litlu búslóðina er nú að finna í geymslum víðs vegar á Stórreykjavíkursvæðinu ásamt því að prýða hillur Góða Hirðisins.

Fataskápurinn fékk sömu útreið. Ég notað helmingaregluna og fyrir hverja flík sem fór í ferðatöskuna fór önnur samstæð í Rauðakrossgáminn. Þrennar buxur, þrjár peysur, fimm bolir, úlpa, regngalli og átta skópör komast nú með herkjum fyrir í 1/3 úr rúmmetra stórum "búslóðargámi" mínum.

Væri þetta nú allt saman í lagi mín vegna ef ég hefði ekki flutt beint í faðm ömmunnar með fílsminnið. Amma mín er ekki farin að kalka og hefur undanfarna daga rifjað upp ýmsar flíkur, sem hún hefur fært mér, til þess að athuga í hvorn gáminn þær fóru. Það er ekki mikillar samúðar að vænta frá konunni sem geymir samtals þrjá búslóðir í 300 fm húsi. Þetta hefur, sem sagt, ekki verið vinsælt umræðuefni.

Í dag leggja þær Anna Pála og Barbara af stað í ævintýraferð hringinn í kring um hnöttinn. Megi ferðaguðinn og lukkan fylgja þeim. Góða skemmtun girlies!

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Halló elsku frænka. Mér var svo mál að pissa síðast þegar ég hitti þig að ég náði ekkert að tala við þig. Hvert ertu að fara? Það er ekki hægt að treysta á upplýsingalindina foreldra okkar frekar en fyrri daginn. Auður

5:06 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Halló! Þú hér? Hringdi einmitt í föður minn í dag, þá var hann á leiðinni til Húsavíkur í jarðaförina. Ég hugsa að hann hafi ekki fattað það fyrr en þá að ég ætlaði að koma með!

Ég flyt til Kaupmannahafnar 25. september.

8:29 e.h.  
Blogger Embla Kristjánsdóttir said...

ohh... skil svo vel þetta með búslóðina :/ er nú aldeilis ekkert grín að ráða í ókomna framtíð... en ég veit fyrir víst að eftir smá tíma hefur maður ekki hugmynd um hvað maður átti :)

3:46 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

haha, já það er líka eins gott. Og eins gott að það er til Ikea, sem selur svo til einnota dót, sem engum ætti að láta sér þykja of vænt um.

4:17 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home