23 janúar, 2007

En ég kann ekki dönsku

Fyrsti vinnudagurinn er að baki. Frikki Weiz var í góðum fíling að þurrka af barnum og leggja mér lífsreglurnar og ég reyndi að fylga þeim í hvítvetna í dag. Danski starfsframinn byrjaði að minnsta kosti vel, en það sama verður ekki sagt um dönskuferilinn. Hann er svo til kominn í ræsið.

Það hófst allt þannig að ég skráði mig í viðtal í dönskuskóla á Nörrebro. Skóla sem leggur mikinn metnað í að kenna útlendingum alvöru dönsku á sem stystum tíma, einmitt það sem ég lagði mesta áherslu á. Hratt og vel. Ég fékk sem sagt viðtal hjá dönskukennara sem fór fram í gær. Hann átti að meta hvers konar kennsla myndi reynast mér best.

Ég mætti tímanlega í gær og var örlítið stressuð yfir þessu mati á dönskukunnáttu minni, því Íslendingur ætti með réttu ekki að fara í dönskuskóla. Með mér í kynningarhluta prógramsins voru: einn hress Portúgali, einn Frakki, einn Íslendingur, einn Ástrali og ein kóresk nunna. Portúgalinn óð mikinn, gekk á röðina og spurði alla hvaðan þeir væru. Þegar komst upp um okkur Jökul, hinn Íslendinginn, að við værum í raun Norðurlandabúar var farið í gegnum skyldleika tungumálanna "yes we have a special language in Iceland, we call it Icelandic" ..og blabla. Seinna fórum við Jökull yfir það hvar við byggjum í bænum, hversu há leigan væri, bölvað vesen að geta ekki horft á handboltann (þar var ég samt komin í spjallstuð því mér gæti ekki verið meira sama) og að lokum sagði ég honum, í óspurðum fréttum, að þótt lokað væri fyrir handboltann þá gæti hann alltaf hlustað á gamla þætti um Bob Dylan í umsjá Megasar á ruv.is. Af hverju ég sagði honum það, veit ég eigi. Stundum rennur bara bullið út úr mér þegar ég tala við ókunnuga.

Eftir stutta kynningu á skólanum fóru fram einstaklingsviðtöl þar sem hver og einn skyldi metinn verðleikum. Ég var orðin frekar stressuð, enda ekki mjög hrifin af svona löguðu. Þegar inn var komið svissaði kennarinn yfir í dönskuna því að ég er Íslendingur og þeir skilja dönsku. Er það ekki annars? Þetta var fyrsta tækifæri mitt til þess að láta á dönskuna reyna síðan ég flutti svo ég hikstaði upp úr mér nokkrum orðum. Löngu spjalli og mikilli pappírsvinnu síðar hallaði kennarinn sér aftur í stólnum og spurði mig beint út af hverju ég vildi læra dönsku, ég kynni hana svo ágætlega. "Já nei" sagði ég "ég kann sko ekki dönsku - ég get bara svona svarað einföldum spurningum og sagt nokkur orð". "Aha" svaraði dönskukennarinn "ég hef ekki vald til þess að setja þig í annað en byrjendanámskeið, en það hentar þér ekki, svo þú verður að tala við studentvejlederen Susanne".

Ég beið líklega í góðar fimmtán mínútur eftir studentvejlederen Susanne. Hún birtist síðan örsnöggt fyrir hornið og sagði mér að fylgja sér. Hún var eldri en sú sem ég hafði talað við áður og átti eigin skrifstofu svo hún hlaut að fá úr þessu skorið. Eftir stutt spjall afréð hún að ég skyldi taka tveggja klukkustunda málfræðipróf. Þar sem að ég hafði ekki margt á prjónunum þann daginn ákvað ég að skella mér. Þá kæmist ég fyrr af stað með dönskunámið. Því fyrr, því betra. Hún beindi mér inn á litla skrifstofu þar sem ég skyldi taka prófið. Á meðan á því stóð þakkaði ég Erlu Elínu fyrir að hafa hrætt úr mér líftóruna í Kvennó og fyrir að muna ennþá trikkið við að taka tungumálapróf. Í tungumálaprófum er prófað úr ýmis konar reglum eins og t.d. hvenær maður notar "når" og hvenær "da". Ef maður getur ómögulega munað hvenær maður notar hvað þá bíður maður alveg rólegur, því að síðar í prófinu mun koma texti þar sem orðin eru notuð á réttan hátt og þá er hægt að átta sig á reglunni. Nú þekkið þið ástæðu góðs gengis undirritaðrar í tungumálaprófum í menntó. Það hafði ekkert með þekkingu á námsefninu að gera.

Prófið gekk vel og ég lauk því með að stuttri ritgerð um það hvernig ég nota internetið. Ég var komin á blússandi siglingu og fór löngum orðum um það hversu mikilvægt internetið er mínu lífi. Kennarinn var í meira lagi impóneraður og ég bjóst við að vera boðið heiðurssæti í heldrimannabekk skólans fyrir advanced nemendur. En nei, þannig gekk það ekki fyrir sig. Mér var hreinlega neitað um skólavist. Susanne sagði að ég hefði ekkert til þeirra að gera, svo góð væri danskan. Ég fann fyrir beiskri höfnunartilfinningu og skildi raunar hvorki upp né niður í þessu. Ég starði orðlaus á Susanne bæði vegna undrunar og líka vegna þess að ég kann ekki dönsku. Síðan hrökklaðist ég út.

9 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

hahah - vandamálið vart bara þú! En samt mjög skemmtilegur pistill hjá þér kæra :)

Þakka fyrir yndislega kaffihúsaferð síðasta sunnudag!

1:56 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Hahahha en fyndið!

1:03 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

hihi .... þú ert svo miklu betri en þú heldur ... gotta start trusting yourself girly!!! ;o)

10:46 f.h.  
Blogger Agnar said...

Frábær blogg hjá þér... ég hló sko dátt að raunum þínum! :)

2:33 e.h.  
Blogger Eva Bjarnadóttir said...

Já, það er gott að hlægja að eigin raunum . Var undir miklum áhrifum frá Ólafi Jóh Ólafssyni þegar ég skrifaði . Var búin að gleyma því hvernig falleg íslenska skrifast. Nú verður gerð bragabót á því.

6:20 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

very nice
Kv.,Kötturinn Wong.

10:56 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

hahaha þú ert snillingur... greinilega líka í dönsku :)

8:20 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Hahah en fáránlega fyndið....En geturðu ekki bara beðið Frissa Weis að leiðbeina þér í vinnunni á dönsku, slá tvær flugur í einu...
Marta

2:17 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Nei nú datt ég af stólnum ... krípus hvað þú ert fyndin barn!

11:05 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home