17 febrúar, 2007

Grasekkja


Nei, það gerist ekki margt þegar kona vinnur frá ellefu til sex alla virka daga. Hafragrautur, kaffi og fréttir af internetinu milli níu og ellefu. Vinna. Vangaveltur um kvöldmat, kvöldmatur og að lokum húslestur. Þar sem búið er fyrir löngu að skrúfa fyrir sjónvarpið hjá okkur (til allrar hamingju, því danskt sjónvarp er krap) er húslestur á kvöldin. Fyrst Sendiherrann og nú síðast bók Eiríks Guðmundssonar, Undir himninum. Ég mæli með húslestri og fyrir þá sem búa einir er hægt að bjóða vini yfir í kvöldte og bókmenntir.

Nú verður þó breyting á stabílum hagi útivinnandi húsmóðurinnar við Östbanegade. Á mánudag mun ég hefja stuttan en vonandi farsælan feril minn sem kokkur. Morgunkokkur. Eftir að hafa masterað latté með hjartamynstri læt ég ekki þar við sitja heldur færi mig yfir í eldamennskuna - avókadósamlokur og pandekager med sirup.

Þar að auki er Östbanebóndinn horfinn á vit ævintýranna til klámeyjunnar í norðri. Ekki þó til að sækja ráðstefnu heldur ætlar hann að opna búð. Tveggja vikna verslun með skyrtum og jakkafötum frá Indriða. Sú verslun átti að opna næsta mánudag, en þar sem að tollayfirvöld munu ekki vinna liðlegheitatitilinn á árshátíð ríkisstofnana í ár opnar hún ekki fyrr en á þriðjudag - í versta falli miðvikudag.

Á meðan að sambýlismaðurinn er að kljást við klám og tollinn ætla ég að kokka á morgnana og skoða Köben í eftirmiðdaginn. Hljómar rómantískt og spennandi en í stað þess að skoða Köben í dag fór ég í El Giganten og keypti headset með hljóðnema til að nota á Skype, verslaði mat í Netto, horfði á Men in Black og hellti upp á Irish Coffee. Er viskí ekki eitthvað fyrir blúsað fólk? Verst að ég drekk það ekki dry, það væri meira kúl. Í kvöld á ég stefnumót við þvottavélina í kjallaranum milli sjö og níu.

2 Comments:

Blogger Silja Bára said...

takk fyrir sendinguna, mín kæra, enginn hafragrautur í morgunmat hjá mér í dag:)

9:15 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

ji en rómó!!

12:59 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home