27 nóvember, 2005

Púff

Ég setti inn myndir frá Las Vegas ferðalaginu 2004 á myndasíðuna

25 nóvember, 2005

Píuammæli

obbobbobbb gleymdi aðeins að blogga.

Annað kvöld ætla ég að eiga píuammæli. Píuammæli er þegar fjórar stelpur á neðanverðum þrítugsaldri halda saman upp á afmælið sitt á Hverfisbarnum aka Sveitta bar. Það sem gerir þetta enn píulegra er að við erum allar háskólapíur og við erum líka allar Röskvupíur. Tvær heita Eva. Tvær áttu afmæli í gær. Þrjár eru dökkhærðar. Þrjár hafa stúderað stjórnmálafræði. Tvær eru í femínistafélaginu, gengu í sama barnaskóla og eiga báðar pabba sem voru skíðaþjálfarar. Og svona mætti lengi telja. Það er mjög píulegt að eiga margt sameiginleg. Kannski að ég fari í háhæla skó svona til hátíðar-píu-brigða.

Þér er því að öllum líkindum (fyrst þú lest þetta) boðið að koma og vera með í píupartýi á morgun kl 20 (ætlum að vera stundvísar, þótt píur eigi auðvitað að vera fashionably late en eins og sannir trend-setterar innleiðum við evrópsku hefðina og byrjum djammið snemma).

17 nóvember, 2005

Fundurinn gekk vel og um 60-70 manns mættu og þurftu margir að standa. Svör þingmannanna voru að vissu leyti fyrirsjáanleg, enda ekki tilgangurinn að fá að heyra eitthvað nýtt heldur að minna á að stúdentum er umhugað um menntun sína og stöðu.

Bjarni Ben (Sjálfst.fl.) og Jónína Bjartmarz (Framsóknarfl.) vilja skoða skólagjöld á framhaldsstiginu. Bjarni bætti við að það þyrfti að tryggja sjálfstæði skólans við inntöku nýrra nema (skiljist: fjöldatakmarkanir) og að hlutfall eldri nema hafi aukist mjög (skiljist: þau geta borgað). Þau eru ánægð með þróun mála og þykjast greina mjög mikla og góða breytingu í menntamálum undanfarin 10 ár. Háskólastefna Sjálfstæðisflokksins kristallast í stefnu menntamálaráðuneytisins en Framsóknarflokkurinn er ekki með stefnu í þessum málum, þótt Jónína útiloki ekki að hún verði mótuð. Hvorugur flokkurinn sér ástæðu til að hækka grunnframfærslu námslána, enda upphæðin að hluta til styrkur og taldi Bjarni muninn á framfærslugrunni LÍN og raunverulegri framfærsluþörf stúdenta vel rúmast í lögum sjóðsins (framf. einstaklings í leiguhúsnæði 124.000 kr vs hámarkslán 82.500 kr). Hvorugur flokkurinn telur að veita eigi stúdentakjör á heilbrigðisþjónustu og flokka eigi stúdenta með öðrum tekjulágum hópum.

Frjálslyndir eru á móti skólagjöldum, fjöldatakmörkunum og einsleitu námsvali. Þeim þykir ekki þörf á að hækka grunnframfærslu lána því endurgreiðslan er þungur baggi seinna meir. Þeim þykir ekki hægt að setja stúdenta undir sama hatt og aðra tekjulága hópa því námsmenn séu sundurleitur hópur. Sigurjón Þórðarson, fulltrúi Frjálslyndra lokaði síðan ræðu sinni með því að segja að fólk í Vöku, sem styður ekki skólagjöld sé hallærislegt ef það er í Sjálfstæðisflokknum, sem styður skólagjöld.

Katrín Júlíusdóttir (Samfylk.) og Kolbrún Halldórsdóttir (VG) eru algerlega á móti skólagjöldum og fjöldatakmörkunum. Katrín benti á að ekki væri hægt að ræða skólagjöld fyrr en búið væri að auka framlög á pari við samanburðarþjóðir. Báðum þykir eðlilegt að framfærslugrunnur LÍN verði lagaður að raunverulegri framfærsluþörf stúdenta. Kolbrún sló þann varnagla á að þó það ætti að vera hægt að taka fullt lán með fullri framfærslu (124 þús) þá ættu stúdentar að leitast við að komast af með sem lægst lán á námstímabilinu.
Báðir flokkar hafa mótað heildstæða stefnu um Háskólann og taldi Katrín Samfylkinguna hafa staðið sig vel á þinginu við að benda á vandamál hans. Kolbrún benti á að samræmi þyrfti að vera á milli menntastefnu og atvinnulífs. Um leið og verið er að leggja áherslu á háskólamenntun er verið að virkja og koma upp verksmiðjum sem krefjast verkafólks en háskólamenntað fólk er að sama skapi atvinnulaust. Þetta fer ekki saman. Varðandi stúdentakjör á heilbrigðisþjónustu taldi Katrín það mikilvægt að skoða það mál frekar og taldið það eiga við í sumum tilfellum og Kolbrún kvatti Stúdentaráð til að fara í viðræður við ríkið um það mál.

Áhugaverð spurning kom í umræðum í lokin er varðar hvernig stjórnmálamenn hugsa um LÍN. Því er alltaf hent fram að hluti lánsins sé styrkur þar sem að fyrir hverja 2 kr sem sjóðurinn lánar skila sér aðeins 1 kr tilbaka í ríkissjóð. Spyrjandinn, María Bjarnadóttir, benti réttilega á að þarna væri verið að tala um heildarmyndina yfir mörg ár en ekki einstaka lánþega, því þegar uppi er staðið þá borgar fólk almennt hverja einustu krónu til baka. Það er því ekki verið að tala um styrk til hvers og eins okkar persónulega heldur er verið að tala um kostnað sem ríkið leggur út fyrir til háskólastúdenta í heild sinni.

16 nóvember, 2005

Þegar stórt er spurt....

Þegar stórt er spurt...

Fundur með:

Bjarna Ben - Kötu Júl - Kolbrúnu Halldórs - Sigurjóni Þórðarsyni - Jónínu Bjartmarz

Rættu um:

Skólagjöld - Námslán - Fjöldatakmarkanir - Stúdentakjör á heilbrigðisþjónustu - Menntastefnu stjórnmálaflokka

= UM HÁSKÓLA ÍSLANDS

Lögberg st 201, fimmtudaginn 17. nóvember kl 12:20

Tökum höndum saman !

13 nóvember, 2005

Ég fékk á endanum að borða á laugardaginn. Það komu reyndar engar matargjafir í Odda. Ætli öllum sé sama um fátæka stúdentinn sem sveltur hálfu hungri? Ef marka má viðbrögð þingmanna við bréfi sem þeim var sent á dögunum um Háskólann og stúdenta, má draga þá ályktun að almennt sé fólki sama um lífskjör og menntun unga fólksins. Er ekki ætlast til að stjórnvöld hafi einhverja stefnu varðandi það hvernig fólk á að komast af meðan það er að mennta sig (...sem á að vera svo svakalega hagkvæmt fyrir þjóðfélagið) - eða er viðhorfið bara 'fyrst ég er búinn að þessu (og er í góóóóðum málum), þá geta hinir reddað sér'?

Mér til bjargar kom amman mín góða (sem er btw fyrrv. ríkisstarfsmaður á eftirlaunum!). Hún bauð mér og frænda í mat og leikhús. Mikið er það gott fyrir andann að næra hann af smá menningu. Við sáum Halldór í Hollywood og það er bara ágætis stykki. Óvenju mikið um rugling en á heildina litið var sviðsetningin góð, tónlistin skemmtileg og leikurinn í flestum tilvikum góður. Ég var ekki eins ánægð með salinn. Hann var frekar andlaus og lítið var um viðbrögð við leiknum ef frá er talin ein hress frú á fremsta bekk (ég var farin að halda að henni hafi verið borgað fyrir að halda uppi stuðinu). Klappið í endann var líka frekar slappt og ekki kom eitt einasta blístur eða bravó!, sem mér þótti miður.

Ég uppgötvaði Kaffi Hljómalind í vikunni og hef farið þrisvar á stuttum tíma. Það er reyklaus, lífrænt og þar fæst Króna konunnar. Það er rekið án þess að einn eða fáir hagnist af rekstrinum og reynt er að kaupa beint af framleiðendum til þess að tryggja heiðarleg viðskipti. Staður mínu skapi.

11 nóvember, 2005

Gefið fátækum að borða

...er í Odda - matargjafir berist á annað borð vinstra megin

---------
Fékk þetta sent og fannst gott. Ég ætla skella einhverju í kassa.

Kæru vinir.
Mig langar til að segja ykkur frá frábæru verkefni á vegum KFUM og KFUK í samstarfi við SOS-barnaþorp. Verkefnið felst í því að fá fólk á öllum aldri til þess að setja nokkra hluti s.s. ritföng, leikföng, sokka,vettlinga, tannkrem, tannbursta, sælgæti og hreinlætisvörur í skókassa.

Skókassanum er pakkað inn í jólapappír og hlutirnir svo settir ofan í kassann. Kassanum er síðan útdeilt til þurfandi barna víðs vegar um heiminn. Í ár á að dreifa íslensku kössunum í Úkraníu og eru það börn sem búa við fátækt, eru á munaðarleysingjaheimilum, á barnaspítölum, eru fórnarlömb stríðs, náttúruhamfara og sjúkdóma sem fá jólakassana.

Í Úkraníu búa um 50 milljónir manna og atvinnuleysi er mikið og ástand víða bágborið. Jólagjöfunum verður dreift á svæði þar sem er allt að 80% atvinnuleysi og þar ríkir mikil örbirgð.

Við Bjarni þekkjum það að eigin raun, eftir 5 vikna veru í Moskvu í sumar, að einn svona jólaskókassi með skemmtilegum smágjöfum í mun gleðja litla sál óendanlega mikið. Það þurfti ekki nema klapp á kollinn, stroku á vangann og augnsamband til að fá litlu börnin á munaðarleysingjaheimilinu til að brosa og líða vel.

Við, sem búum við allsnægtir, höfum hér tækifæri til að gleðja lítil börn úti í heimi sem eiga varla fötin sem þau eru í. Mig langar því að hvetja ykkur, til aðtaka þátt í þessu verkefni. Ég er sjálf búin að útbúa tvo kassa sem ég ætla að koma til KFUM og KFUK núna í vikunni.

Það er tilvalið að versla t.d. í Tiger eða Rúmfatalagernum ýmislegt smálegt fyrir lítinn pening.

Ég vil vekja athygli á því að einungis er hægt að skila inn kössum til 12.
nóvember n.k. svo það er stuttur tími til stefnu. Þeim á að skila inn til KFUM og KFUK á Holtavegi 28 í Reykjavík milli kl. 9-16. Síðasti dagurinn er svo eins og áður sagði laugardagurinn 12. nóvember en þá er opið frá 11-16.


Vona að þið takið vel í þessa ábendingu frá mér og takið þátt í verkefninu.

Bestu kveðjur,
Elín Henriksen

03 nóvember, 2005

Háskólaræktin

Mér þykir Háskólaræktin vera snilldarstaður. Mér þótti ekki mikið til hennar koma í fyrstu og fór jafnvel svolítið hjá mér. Þetta er svo lítið og náið og maður hittir alltaf einhvern sem maður þekkir. Það var eitthvað fast í mér að vilja týnast í hafsjó af fólki og tækjabúnaði. En ég er núna búin að skipta um skoðun. Það er fínt að vera í litlu líkamsræktarsamfélagi þar sem maður sér kunnugleg andlit.

Annað sem mér þykir skemmtilegt við Ræktina eru að þar koma kennarar líka. Þetta er eini staðurinn þar sem kennarar og nemendur HÍ hittast sem jafningjar. Alveg jafn berskjölduð, sveitt í íþróttagalla. Ég myndi vilja fá fleiri staði þar sem kennarar og nemendur er hluti af sama samfélagi. Til dæmis þykir mér eðlilegt að kennarar og nemendur noti sama mötuneytið/kaffistofuna. Mér var bent á að kennararnir eru líklega ekki sammála mér í þeim efnum. En hvað er það öðruvísi en Ræktin?

Mér þykir þessi hátíðlega skipting í kennara annars vegar og nemendur hins vegar ekki til þess að bæta Háskólann. Þvert á móti gerir þetta hann ópersónulegri en hann þarf í raun að vera.

01 nóvember, 2005

Klukkan er allt of margt ....

Það er bara R&B tónlist í sjónvarpinu á næturna. Ég fíla ekki R&B.

Ég er gamlari en í fyrradag. En nú á ég ipod nano. Það þykir mér ljúft.

Nýji kisinn hans bróður míns er sætasti kisi í heiminum. Hún heitir Fríða.

Ég ætla að fara að sofa