29 apríl, 2006


Ég held að Kindin Einar sé uppáhaldslagið mitt núna. Ótrúlega hresst lag - samt kúl- um skelfilegt morð á kind og barbarisma rútufarþega og bílstjórans.

Morgunn einn ég hoppa upp í rútuna
með vasa fulla af banana.
Grænum geðþekkum fasana
hafði ég í bítið ælt.

Upp í sveit ég ætlaði að halda hana
í svaka partí með píuna.
En síðan hraktist ég leiðina,
það var klárlega sem við manninn mælt.

Kindin Einar var þá við vegabrúnina
búinn að bíta upp alla túnina.
Fyrir hann var og ég keyrði hann í spað.

Hann sagði dada...
en meinti bada, verst var það.

Það var komið langt fram að hádegi
og þá hrópaði einn farþegi
að færi ekki lengra ef hann fengi eigi
greyið Einar rúð og skrælt.

Nú ég kvað við, hví ekki á þeim degi
barasta að búta hann strax.
Svo hreinlega velta honum úr deigi,
grilla hann og egg með jafnvel spælt.

Kindin Einar var þá við vegabrúnina
búinn að bíta upp alla túnina.
Fyrir hann var og ég keyrði hann í spað.

Hann sagði dada...
en meinti bada, verst var það.

25 apríl, 2006

Friðrik Karlsson er með svörin


Það er ekki laust við örlítinn taugatitring, eitthvað sem virðist óhjákvæmilega fylgja árstíðinni. Til þess að komast í gegnum næstu þrjár vikur ætla ég að sigra heiminn þrisvar sinnum. Klára ritgerðabunkann, meðan ég næli í toppeinkunnir í prófunum, um leið og ég verð best í atvinnuviðtölunum. Það dugar ekkert minna.

Þessi tilhugsun er kannski aðeins að ganga fram af stáltaugunum. Fyrstu einkenni taugaáfalls gerðu vart við sig um helgina síðustu. Litlir augnkippir hér og smá viskí þar. Allt á blússandi siglingu í átt að spennutreyju og róandi. Í einum örvæntingarfullum leiðangrinum um hús móður minnar, í leit að einhverju sem gæti sefað, fann ég svarið.

Tranquility með Friðriki Karlssyni, Mezzoforte gítararista og new-age tónlistargúru sýndi mér ljósið. Ég skellti Rólegheitunum í tækið og viti menn! Stíflur rithandarinnar brustu og orðin flæddu fram í fingurna eins og Þjórsá í leysingum. Það er eins og þessi 14 -15 mín ambient-gítar-tölvuhljóða-lög stilli heilann af ofvirkni og einbeitingaleysi yfir á fullkomna afslöppun. Ég sat án gríns kyrr í fjóra klst og lærði.

Og hver hefði trúað því að Frissi Karlsson session gítarleikar væri með svörin?

21 apríl, 2006

Af gleymdum vinum og bleiku hári


Ég hitti gamla vinkonu hérna í Firðinum um daginn (veit ekki hvort maður kallar Hafnafjörð "Fjörðinn" en finnst það hljóma eitthvað svo heimilislega). Ég hef heyrt marga lýsa því hversu vandræðalegt og tilgangslaust það sé að spjalla við fólk sem þeir hafa ekki hitt í áraraðir og eiga ekkert sameiginlegt með lengur. Þessi vandræðalega þögn, alltaf sömu spurningarnar og kvíðafull leit að einhverju til að tala um eftir að spurningunum hefur verið svarað. Svo þegar manneskjan sem þú hittir spyr ekki á móti og þú tekur einskonar viðtal við þessa hálfókunnugu manneskju þar til nákvæmlega réttur tími er kominn til þess að segja "jæja, það var nú aldeilis gaman að rekast á þig. Við sjáumst kannski síðar ...á rejúníoni kannski bara ha! ..bleeeesss". Hlaupa síðan burt meðan aulahrollurinn hríslast niður bakið.

Málið er að mér finnst þetta alls ekki vandræðalegt né tilgangslaust. Þvert á móti hafði ég bara mjög gaman að því að rekast á þessa gömlu vinu. Hún býr ennþá á Hverfisgötunni, hún er hætt í háskóla í bili en er komin með þessa líka fínu vinnu í Firðinum. Hún heldur ennþá sambandi við aðra gamla vinkonu, sem er búin að lita hárið sitt bleikt. Frábært. Mér finnst bara reglulega heimilislegt á Íslandi að losna aldrei undan gömlum vinum og vinkonum, skólafélögum, samstarfsfélögum eða bólfélögum. Þau eru bara öll hérna í næstu götu og stundum rekst ég á þau og spjalla um eitthvað nauðaómerkilegt. Huggó.

20 apríl, 2006

Feminísk stjórnmálafræði


"Feminism has been less successful in challenging "malestream" politics than in the near-revolution it has achieved elsewhere. We are living through a time of major transformation in sexual relations ...In politics, by contrast, it still seems like buisness as usual" (Anne Phillips, 1998)

Viva la revolutión!

17 apríl, 2006

skoðun.is


Þrátt fyrir einstaklega miklar skoðanir á gjörsamlega öllu þessa dagana, sem ég læt í ljós í tíma og ótíma, hef ég ekki getað bloggað. Kannski er netleysi á Nesinu um að kenna.

Undanfarið hef ég svoleiðis ælt skoðunum mínum, eða bara alls ekki ekki skoðunum heldur almennum pælingum um lífið og tilveruna, yfir fólk. Ég finn mig knúna til að ræða trúmál við trúaða, sjálfstæðisfokkið við sjálfstæðismenn og femínisma við öll tækifæri. Ég hreinlega veit ekki hvað veldur. Þetta kemur bara og svo get ég ekki hætt.
Um daginn gerði ég annars ljúfan mann brjááálaðan þegar ég velti fyrir mér hvernig fólk verður samkynhneigt. Mér kastaði fram hugmyndinni um að samkynhneigð væri ekki meðfædd heldur félagslega mótuð. Mér er alveg sama hvort hún er - skiptir mig ekki nokkru máli. Ég var bara að velta þessu fyrir mér.
Nú síðast var ég í huggulegri sumarbústaðarferð með kærastanum og fjölskyldu hans. Ég fann mig samt knúna til að ræða aðeins um kapítalisma, arðrán, kjarnorkuvopn og málefni Kína. Sem betur fer voru flestir sofnaðir um þetta leiti (wonder why??). Ég, eldhress að tjá mig um líðandi stund og gera alla brjááálaða.

Skoðun.is tók sér páskafrí og mun chilla aðeins í Hafnarfirðinum fram yfir helgi.

04 apríl, 2006

Um blikkbeljur og þunglynda hermenn

Það er allt í háalofti á Fróni vegna brotthvarfs bandaríska hersins, eða öllu heldur bandarísku hersstöðvarinnar sem virðist gegna öllum öðrum hlutverkum en að verja landið. Allt þetta fjaðrafok hefur vakið athygli mína og ég get einfaldlega ekki séð af hverju herinn ætti ekki að fara.

Það virðist vera algengur misskilningur manna að Ísland sé “herlaust og friðelskandi ríki”. Þótt Íslendingar sinni ekki herþjónustu, þá hefur verið hér her síðan í seinni heimsstyrjöld og Ísland er aðili að tveimur hernaðarsamningum, tvíhliða samningi við Bandaríkin og að pólitíska hernaðarbandalaginu NATO. Þótt Ísland sendi enga hermenn og engin vopn í stríðin sem félagar okkar há, þá sendir það hjúkrunarfólk, flugumferðastjóra, teppaáhugafólk og fleiri góða til þess að styðja við hernaðaraðgerðir annarra ríkja. Ísland er fullur þátttakandi í stríðum heimsins og er raunar mjög langt frá því að vera “herlaust og friðelskandi ríki” – að mínu mati.

En aftur að herstöðinni. Á Miðnesheiðinni sitja fjórar eldgamlar blikkbeljur, nánast engin vopn og reiðinnar býsn af þunglyndum hermönnum, sem ýmist stundar hverfiskránna eða ganga til kirkju. Er það nema von að fólkið missi sjónar af tilgangi tilveru sinnar við komuna í kommablokkina í rokrassgatinu á Suðurnesjum? Er það nema von að fólkið missi síðan álit á landi og þjóð þegar það uppgötvar að eini tilgangur herstöðvarinnar er að halda uppi litlu sjávarplássi og bjarga sjómönnum úr lífsháska, því að einu tvær þyrlurnar á landinu er of hægfara? Ætli það finnist ekki fleirum en mér að þróunaraðstoð væri meira viðeigandi en herstöð – að kenna þjóðinni að bjarga sér sjálf í stað þess að halda henni uppi?

Ég var stödd í aðalherstöðvum NATO í Evrópu (SHAPE) í síðustu viku og fékk þá tækifæri til þess að spyrja þrjá hershöfðingja spjörunum úr. Þeirra sýn á málin var mjög athyglisverð og staðfestu fyrri grun minn. Ég spurði þá hvort það væri nauðsynlegt að vera með “sýnilegar varnir” á Íslandi. Svarið var neikvætt og því fylgdi nokkur rök. Í fyrsta lagi hefur Ísland misst hernaðarlegt mikilvægi sitt. Í stað þess að móðgast og fara í fýlu, ættum við að fagna því að enginn vill ráðast á okkur.

Í öðru lagi er hernaður eins og stærðfræðidæmi og herir eru ekki pólitískt reknir innbyrðis (þótt utanaðkomandi pólitískir aðilar geti haft áhrif á ákvarðanatöku). Þegar kemur að ákvörðun eins og að færa herstöð, þá liggja baki útreikningar á kostnaði, hagnaði, yfirvofandi hættu og svo framvegis. Litlar líkur er á að Bandaríkjaher myndi skilja Ísland eftir varnarlaust ef það væri í hættu.

Í þriðja lagi er Ísland ekki varnarlaust. Það gleymist í varnarumræðunni að Ísland er aðili að NATO. Hvað svo sem fólki kann að þykja um það, þá er það að minnsta kosti hernaðarbandalag sem einsetur sér að verja aðildarríki sín. Samkvæmt hershöfðingjunum er meira gagn í herstöðinni í Skotlandi heldur en þeirri í Keflavík ef til árásar kæmi og Ísland ætti að treysta meira á bandalagið með varnir.

(Önnur leið væri að segja sig úr NATO, vera fyrir alvöru herlaust, friðelskandi ríki og treysta á Guð, lukkuna og líkindareikning).

Tvennt annað kom fram á fundinum sem vert er að minnast á. Það fyrra var að nokkur NATO ríki skipta með sér að verja lofthelgi Eystrasaltsríkjana. Þegar hershöfðingjarnir voru spurðir að því hvort væri möguleiki á svipuðu fyrirkomulagi á Íslandi sögðu þeir að það væri einfaldlega ekki nauðsynlegt. Eystrasaltsríkin eiga landamæri að Rússlandi og ennþá ríkir spenna og ótti þar á milli. Ísland er ekki í þeirri hættu.
Hitt var spurningin um áhrifamátt Íslands inni í NATO, þar sem ríkið á ekki eigin her og getur ekki lengur lagt til landsvæði fyrir herstöð. Hershöfðingjarnir komu með tvær tillögur að hvernig Ísland gæti aukið mikilvægi sitt innan bandalagsins. Sú fyrri var einfaldlega að borga uppsett verð. Í sáttmálanum er gert ráð fyrir annars vegar “ársgjaldi í félagið” og hins vegar að ríkin eyði 2% af þjóðartekjum sínum í varnar- og öryggismál. Ísland gæti borgað þessi tvö prósent beint til NATO, sleppt því að vera með herstúss en haldið mikilvægi sínu.
Sú seinni var að Ísland myndi finna út hvar þörfin liggur í NATO og framleiða eitthvað sem er nauðsyn fyrir. Það vantar ennþá samhæfingu í framleiðslu á hergögnum og annarri þjónustu milli aðildarríkjana. Ísland gæti nýtt sér þetta til að gera sig ómissandi fyrir heildina. Svo þegar færið væri í aðgerðir þyrfti að hringja til Íslands og biðja um aðstoð.

(Svo er líka möguleika að taka ekki þátt í einu eða neinu)

Þetta er ef til vill eitthvað einfölduð mynd en niðurstaðan mín er sú að við þurfum ekki “sýnilegar varnir” á Íslandi, höfum ekkert að gera við varnarlið Bandaríkjana og þurfum að læra að sjá um okkur sjálf. Við þurfum að bæta innri starfsemi okkar í löggæslu og sjóbjörgunum um leið og við leitum leiða til þess að taka þátt í alþjóðasamvinnu á eigin forsendum.

02 apríl, 2006

Mínimalismi

Ég tók nýja stefnu í bloggmálum eftir að hafa velt lengi fyrir mér spurningunni hvort ég væri eða væri ekki bloggari. Ég ætla að gefa því séns og ákvað að skrúfa niður í glysinu og leggja meiri áherslu á að skrifa eitthvað að viti. Sjáum til hvað kemur.