30 september, 2006

Pabbi bílstjórans gerði kassana


Við erum flutt í nýju íbúðina okkar jeij,jeij, jeij!
Undanfarna þrjá daga höfum við verið að þrífa, flytja dótið okkar yfir og koma því fyrir. Skruppum meira að segja í Ikea til að sækja það sem okkur vantaði.
Sturtan er í ólagi en sem betur fer erum við með tvær íbúðir til umráða svo við förum bara í hina íbúðina til að þvo af okkur skítinn.
Fyrsta matarboðið var í gær. Við buðum Hauki upp á grænmetislasagna a la Stymmi. Vegna síðbúinna flutninga og smá erfiðleika við að finna búðina fékk fyrsti gesturinn á Östbanegade að svelta fram undir kvöld. Það reyndist síðan vera afbragðs ráð því maturinn varð enn guðdómlegri fyrir vikið.

Nú bara massastemmari með Classic í glasinu og Bikstar Rögsystem á fóninum.
Þetta er bara svona tjekk-inn ..kem með betri sögur næst!

27 september, 2006

Bíla-bingó-vöðvar


Þá er biðstaðan búin og ég er komin til útlanda. Það er nú mikið að gera í útlöndum. Ég hef aðallega hjólað síðan ég kom. Hjólað í útlendingastofnun og hjólað fram hjá nýju íbúðinni okkar. Svo hjólaði ég í bæinn. Í bænum labbaði ég í marga hringi því ég rata ekki neitt. Ég hef að minnsta kosti hjólað svo mikið að ég er með harðsperrur í öllum bíla-bingóunum og ég sofna eins og ungabarn á kvöldin. Ég verð áreiðanlega óþekkjanlega fitt næstu jól.

Sólin tók á móti mér á Kastrup og ullarpeysurnar tvær voru bara til trafala. Það sama gilti um gærdaginn, nema þá skildi ég lopann eftir heima. Í dag er hins vegar rigning. Það flækir örlítið málin því að þegar maður hefur ekið um á bíl í 5 ár, þá á maður ekkert vatnshelt. Ég minnist bara langa rigningasama vetrarins í N-Frakklandi þegar ég var alltaf blaut í fæturna.

Ég hef nú enn ekki haft mikið samband við Bauna ennþá enda alveg hægt að komast hjá því. Ef ég héldi mig bara mest heima hjá mér og hjólaði í mesta lagi á bókasafnið með nestispakka með mér, færi síðan í félagsheimili Íslendinga í Jónshúsi til að skemmta mér og á Laundrymat til að drekka kaffi, þá væri þetta nú bara eins og heima. Til hvers að breyta til þegar það er félagsvist á þriðjudögum með öllum hinum Íslendingunum.

17 september, 2006

Biðstaða

Við í Aldingarðinum nennum ekki að blogga hér á Íslandi lengur og ætlum að bíða þar við komum til útlanda. Af hverju við erum farin að tala í fleirtölu vitum við ekki. Höfum fengið hugmynd að jákvæðri afskiptaleysisstefnu í persónulegum samskiptum og munum þróa hana áfram á næstunni. Kannski verður það bók. Höfum einnig hlýtt skipun að ofan, sem var alls ekki samkvæmt jákvæðu afskiptaleysisstefnunni, og stofnað Myspace síðu. Til hvers hún er vitum við ekki en bíðum frekari fyrirmæla.

Þar til næst...

ps. komnar myndir frá hringferðinni kringum Ísland hér

09 september, 2006

Mini búslóð

Þá hefur Aldingarðurinn verið færður enn og aftur um set. Má finna paradísina í Laugarnesinu fram að mánaðarmótum. Það sem eftir lifir vetrar verður hún ekki lengur á færi Íslendinga að heimsækja, nema þeir leggi land undir fót.

Sjaldan hef ég lent í leiðinlegri flutningum en þessum, þótt margir hafi verið. Ekki var hægt að henda draslinu í kassa og taka það upp aftur á nýjum stað heldur þurfti ég að skoða hvern einasta hlut og velta fyrir mér tilfinningalegu gildi og efnislegri gagnsemi í ófyrirsjáanlegri framtíð. Fór ekki betur en svo að á síðasta degi var enn talsvert eftir sem fékk að fjúka í tunnuna. Litlu búslóðina er nú að finna í geymslum víðs vegar á Stórreykjavíkursvæðinu ásamt því að prýða hillur Góða Hirðisins.

Fataskápurinn fékk sömu útreið. Ég notað helmingaregluna og fyrir hverja flík sem fór í ferðatöskuna fór önnur samstæð í Rauðakrossgáminn. Þrennar buxur, þrjár peysur, fimm bolir, úlpa, regngalli og átta skópör komast nú með herkjum fyrir í 1/3 úr rúmmetra stórum "búslóðargámi" mínum.

Væri þetta nú allt saman í lagi mín vegna ef ég hefði ekki flutt beint í faðm ömmunnar með fílsminnið. Amma mín er ekki farin að kalka og hefur undanfarna daga rifjað upp ýmsar flíkur, sem hún hefur fært mér, til þess að athuga í hvorn gáminn þær fóru. Það er ekki mikillar samúðar að vænta frá konunni sem geymir samtals þrjá búslóðir í 300 fm húsi. Þetta hefur, sem sagt, ekki verið vinsælt umræðuefni.

Í dag leggja þær Anna Pála og Barbara af stað í ævintýraferð hringinn í kring um hnöttinn. Megi ferðaguðinn og lukkan fylgja þeim. Góða skemmtun girlies!