22 febrúar, 2006

Af dauða tölvu og annað skemmtilegt

Muuuhuuu .... tölvan mín er dauð! Ég var í sakleysi mínu að vinna á hana í gærkvöldi þegar hún allt í einu rak upp skaðræðisöskur og fölnaði. Ef ég ýtti á takkana emjaði hún enn hærra. Eftir nokkrar endurlífgunartilraunir gusaðist heitt loft út um hlið hennar og leit út fyrir að hún væri að brenna innan frá. Hún dó í höndunum á mér. Mér fannst ég hafa misst náinn vin og ég var svo einmana að ég gat varla sofnað. Í dag fór ég með hana á slysó þar sem hún var úrskurðuð látin. Svona er tæknin hverful.

Það sem má læra af þessari dæmisögu er að eiga backup af öllu sem er í vinnslu í tölvunni og ljósi punktur sögunnar er að það er minna en vika þar til ég fer til DK!

20 febrúar, 2006

Nýjasta ÆÐIÐ í netheimum

18 febrúar, 2006

Enn af norrænum drykkjutúrum

Síðasta færsla krefst kannski útskýringar. Þannig er að Habbý er skipuleggjandi norrænnar laganemaviku á Íslandi þetta árið. Norrænar laganemavikur eru haldnar víðsvegar um Norðulönd og þar fara norrænir laganemar á fyllerí. Hann Dag, sem hefur gist hérna undanfarnar nætur, (þótt hann eigi alls ekki að vera hér heldur í vesturbænum) hefur farið á samtals 21 norræna laganemaviku á tæpum 3 árum. Sem sagt, fyrir utan venjulega helgardjammið í Osló hefur maðurinn verið fullur í fimm mánuði á undanförnum þremur árum, því markmið þessara vikna er að láta aldrei renna af sér (af því er virðist - ef ég skil þetta rétt).

Sem betur fer eru Norrænu laganemarnir, sem gista heima hjá mér í ár, skömminni skárri heldur en sænsku lúðarnir sem við fengum úthlutað í fyrra og guði sé lof fyrir það. Eins gott að vera ekki með einhverja lúða heima hjá sér ...ha!?!

Ég skil ekki norrænar laganemavikur

Aldrei hefði ég trúað því að ég myndi enda sem partý-púberinn, týpan sem sussar á fullt fólk sem er að skemmta sér og neyðir það til að fara að sofa. Alveg þar til að sambýliskona mín bauð nokkrum Skandinövum að gista heima hjá okkur. Fólkið er frá hinum ýmsum Norðurlöndum og er fullt allan sólarhringinn. Þau vakna full, fara í kokteil og koma síðan heim til mín í hópum og eru full að djamma. Frábært! Elska Norðurlönd, Skandinavíu og jafnvel fyllerí ...bara ekki heima hjá mér um miðjar nætur.

07 febrúar, 2006

Fréttir úr baráttunni

Stórtíðindi í kosningunum. Annað sæti á lista Háskólalistans frá því í fyrra (og jafnframt formaður Politicu) sagði af sér í dag. Pínku leiðinlegt fyrir þau. Það er alltaf svoldið slæmt fyrir mojoið þegar manns eigins fólk missir trúnna.

Ég sá hluta af framboðsfundinum í dag og þótti Dagný Ósk og Atli þrusuflott. Dagný fór líka í viðtal á NFS með fyrstu sætum hinna fylkinganna og kom best út.

Arna Huld og mamma mín héldu fund í hjúkrunardeild í dag. Það var mjög vel mætt og margar spurningar til hjúkrunarfræðinganna þriggja. Mamma kom á óvart með massívri Röskvuræðu.

Ekki gefa skít

Kjóstu Röskvu

Láttu þér ekki standa á sama. Staðan er nefnilega einföld. Ef við bregðumst ekki við með raunverulegum aðgerðum munu skólagjöld skella á. Ef við bregðumst ekki við verður skólagjaldastefna núverandi ríkisstjórnar að veruleika.
Fyrsta skrefið er að kjósa Röskvu. Við munum nýta réttindaskrifstofu stúdenta til þess að þrýsta á að fjárhagsstaða HÍ verði löguð. Við blásum á allar bölsýnisraddir um að Stúdentaráð geti ekki sinnt hagsmunabaráttu innan og utan Háskólans.
Röskva veit að námslánin þín skipta máli. Við höfum lagt mikið á okkur undanfarið ár, fyrst komum við á samstarfi milli námsmannahreyfinganna, sem var í molum fyrir. Samstarfið skilaði síðan bestu samningum við Lánasjóðinn sem náðst höfðu í langan tíma.

Röskva veit að samkeppnisstaða Háskóla Íslands er skökk. Stúdentaráð þarf að krefjast þess að upphæð skólagjalda verði dregin frá ríkisframlögum til einkarekinna skóla.
Röskva veit að námið þitt skiptir máli. Í samvinnu við skorafulltrúa og deildafulltrúa mun Röskva hvetja til þess að hagsmunafélög verði stofnuð í öllum deildum. Þannig stuðlum við að því að Stúdentaráð fái betri upplýsingar um kennslu og kennsluhætti í Háskólanum.
Röskva veit að jafnrétti skiptir máli og virkjaði starf jafnréttisfulltrúa SHÍ í vetur, sem vann dugmikið starf. Jafnréttisnefnd vann loksins að raunverulegum jafnréttismálum og stóð fyrir miklum framkvæmdum.
Röskva veit að hollur og góður matur skiptir máli. Heilbrigðisstefna Röskvu er að fá hollari mat á kaffistofurnar í samstarfi við FS, láta gera úttekt á geðheilbrigði stúdenta, styðja við starf íþróttahúss HÍ og gera skurk í umhverfisvernd á háskólasvæðinu.
Röskva veit að fjölskyldan skiptir máli. Sterkt foreldrafélag, í samsstarfi við fjölskyldunefnd SHÍ, mun berjast fyrir því að meira tillit verði tekið til foreldra í háskólanámi. Til þess þarf hagsmunagæslu líkt og þegar Röskvuliðar tóku eftir göllum á greiðslum úr fæðingarsjóði til nýútskrifaðra nema og stúdenta erlendis. Það hefði ekki gerst ef Röskva einblíndi eingöngu á vandamál innan skólans.

Röskva veit að allt þetta og fleira skiptir þig máli. Okkur er ekki sama.

05 febrúar, 2006

Um Vöku og skítlegan málflutning

Ef marka má málflutning þeirra sem hafa fengið símtal frá andstæðingum Röskvu, þá er nokkuð ljóst að Vökuliðar ljúga eins og þeir eru langir til. Ég hef séð ýmislegt síðastliðin tvö ár en aldrei orðið vitni að jafnmarkvissum bull-málflutningi og í ár.
Það gerir heiðarlegu fólki erfitt fyrir. Ég hef engan áhuga á því að ljúga upp á andstæðinga mína. Ég þarf ekki á því að halda því málstaður minn er heill og fylkingin mín hefur unnið gott starf undanfarið ár.

Lygarnar sem komið hafa fram eru að Röskva vilji mótmæla virkjunarframkvæmdum og reykingum á skemmtistöðum í nafni Stúdentaráðs. Virkjunarframkvæmdir hafa aldrei verið til umræðu innan Röskvu og aðeins einn Röskvuliði lýsti yfir áhuga á því að álykta með reykingabanni. Í krafti meirihlutans var sú tillaga felld innan samtakanna.
Hins vegar var Vaka mjög fylgjandi mótmælum gegn ritstjórnarstefnu DV. Ef marka má yfirlýsta stefnu þeirra um hlutverk Stúdentaráðs (að það megi bara álykta um mál sem varða stúdenta beint og allir stúdentar eru sammála um), þá eru þau í hrópandi mótsögn við sjálfan sig. Röskva tók þátt í þessum mótmælum, enda sjálfsagt að Stúdentaráð og hreyfingarnar láti í sér heyra um málefni líðandi stundar ef meirihluti ráðsins er sammála um að taka afstöðu.

Það er greinilegt að Vaka er í dauðteygjunum málefnalega. Sama má segja um málefnaskrá þeirra sem inniheldur bæði hreinar lygar og málefni sem fundin voru í málefnaskrá Röskvu.

Annað mál eru lygar um lánasjóðsamningana. Vaka heldur því fram að fullt af fólki hafi tapað á samningunum. Í raun voru það aðeins 8% sem töpuðu frá 0 - 1600 kr á mánuði og það voru ekki þeir verst settu. Yfir 90% græddu á breytingunum og var fólk að fá allt upp undir 10.000 krónum meira á mánuði en áður. Vaka hagræðir sannleikanum sér í vil og rýrir trúverðugleika SHÍ í leiðinni.

Síðasta útspil þeirra var gagnrýni á Röskvu fyrir að vilja frekar berjast með Þjóðarbókhlöðunni til þess að fá meira fjármagn til hennar, heldur en að Stúdentaráð vinni sjálfboðavinnu þar á kvöldin. Ég hef það frá Landsbókaverði að hún vill ekki sjá neina ölmusu og lélegar lausnir á fjárhagsvandanum heldur vill hún fá það fjármagn sem stofnuninni ber. Það hljómar kannski ekki hetjulega en ég hef margt betra við tíma minn að gera heldur en að vakta Þjóðarbókhlöðuna og Vökuliðar hefðu það líka ef þeir sinntu hagsmunabaráttu stúdenta af heilum hug.

Oddviti Vöku hafnaði embætti á Réttindaskrifstofu SHÍ í sumar á þeim forsendum að þar væri ekkert fyrir hann að gera!!! NEI, hagsmunabarátta stúdenta hefur einmitt alltaf þjáðst af of fáum verkefnum! Vaka hefur því ekki efni á að kvarta yfir starfinu í vetur. Með fleiri starfsmönnum á skrifstofunni eflist að sjálfsögðu baráttan. Og þetta var ekki spurning um sparnað því búið var að hagræða málum þannig að launakostnaður myndi ekki hækka þrátt fyrir fleiri starfsmenn.

Þetta er kannski drull en ég er bara að segja sannleikann því hann er sagna bestur.