28 október, 2005

Svo kom Vetur konungur og lamdi börnin sín. Bíllinn er ekki komin á vetrardekk takk fyrir! Held mig bara heima í bili.

Fundir eru eitthvað sem virðist bara aukast með árunum. Fyrirbæri sem fer misvel í mig. Stundum fer ég á skemmtilega fundi, stundum fer ég á tilgangslausa fundi, stundum fer ég bara á svo marga fundi að mér þykir nóg um. Fyrirlestrar eru líka fyrirbæri sem kemur með aldrinum. Kennarar eru með kennslustundir í grunn- og menntaskóla en fyrirlestra í Háskóla. Þeir ætla ekki að kenna þér neitt heldur að þylja upp upplýsingar sem þú getur vegið og metið hvort séu nothæfar. Ef ég hef skilið það rétt. Akademískur þankagangur - sannleikurinn er ekki til!

Á morgun gefst stúdentum tækifæri til þess að gefa sitt innlegg inn í Vatnsmýrarumræðuna. Það verður stórskemmtileg vinnustofa á morgun í st 131 í Öskju milli kl 13-17. Það er ótrúlega mikilvægt að hafa áhrif á umræðuna á þessu stigi málsins áður en búið er að festa hlutina. Svo mætum öll !

25 október, 2005

Kvennafrídagurinn var æðigæði. Hef sjaldan skemmt mér jafn vel.

Ég tók slatta af myndum

..og setti inn í leiðinni fleiri myndir frá Austurríki undir framhaldspakkann. Er ennþá að læra á þetta allt saman. Þetta kemur í skömmtum því það tekur endalausan tíma að hlaða myndunum inn. Jájá ég á örugglega að vera með eitthvað forrit sem bjargar því en ég bara nenni ekki að eltast við það.

Áfram stelpur!

22 október, 2005

Ái! Árgangurinn minn útskrifast úr Háskóla í ár þ.e.a.s. þeir sem kláruðu pakkann á réttum tíma. Ég er ekki ein af þeim. Ég ein af þeim sem þurfti svo mikið að flippa í útlöndum. En það eru líka nánast allir sem ég þekki. Það er fínt að vera í skóla og þar ætla ég að vera sem allra allra lengst.

Ég tók þátt í þjónustukönnun Kringlunnar í dag þar sem ég var spurð hvort mér fyndist einhverjar búðir eða þjónustu vanta í Kringluna. Ég hefði viljað segja að Kringlunni er ekki viðbjargandi sama hversu miklu er troðið þangað inn. Af tillitsemi við spyrilinn lét ég það vera. Ég var jafnframt spurð hvað ég væri gömul. Það kom smá hik á mig. Það er svo erfitt að muna hvað maður er gamall þegar maður er um það bil að skipta yfir á næsta ár. Tuttugu og þriggja hljómaði gamalt og ég spáði í það hvort ég ætti að fara úr beibíbláu Paul Frank peysunni minni. Myndin af brosandi apa með teina virtist mjög taktlaus á þessu augnabliki.

Stúdentar og konur hafa hátt þess dagana svo ég er í essinu mínu.

Hvers vegna kvennafrí?

Vegna þess að:

...atvinnutekjur kvenna eru aðeins 64,15% af atvinnutekjum karla
...konur eru með 72% af launum karla fyrir jafnlangan vinnutíma
…barneignir hafa neikvæð áhrif á laun kvenna en jákvæð áhrif á laun karla
...margar konur búa við öryggisleysi og ógn á heimilum sínum
...ein af hverjum þremur konum verður fyrir kynbundnu ofbeldi á lífsleiðinni
...konur uppskera ekki í samræmi við menntun sína
…konur í fyrirtækjarekstri hafa verri aðgang að fjármagni
…ábyrgð á umönnun barna og heimilisstörfum er enn að mestu á höndum kvenna
...umönnunarstörf eru með lægst launuðu störfum á vinnumarkaði
...rödd kvenna er veik í fjölmiðlum
...litið er á líkama kvenna sem söluvöru
…kona hefur aldrei verið forsætisráðherra, bankastjóri eða biskup
...konur hafa aldrei verið helmingur þingmanna
...konur njóta ekki jafnréttis á við karla
...þessu þarf að breyta. Ég þori, get og vil!


KONUR SÝNUM SAMSTÖÐU

Leggjum niður störf á Kvennafrídaginn 24. október kl. 14.08 og fyllum miðborgina svo
eftir verði tekið – eins og fyrir 30 árum.
Hittumst á Skólavörðuholti kl. 15 og förum í kröfugöngu. Baráttufundur á
Ingólfstorgi kl. 16.

19 október, 2005

Ég er búin að mynda mér svo margar skoðanir og rannsaka svo ótalmargt undanfarin sólarhring að það sýður á hjá mér. Ég er nefnilega að gera rannsóknaverkefni. Þetta tvennt hefði farið ágætlega saman ef rannsóknarvinnan hefði beinst að þar til gerðu rannsóknarverkefni. Svo var þó ekki.

Ég rannsakaði orðræðu sjálfstæðra kvenna - komst að því að sumar þeirra eru með nákvæmlega sömu áherslur "vinstrifemínistarnir" sem þær hatast svo við. Þær bara vita það ekki. Aðrar vilja að konur hætti að væla og hysji upp um sig pilsin eða eins og það var orðað af ónefndum viðskiptifræðinema um daginn "konur læri að semja um laun". Áberandi voru greinar um leikskóla og önnur mál tengd börnum. Ég þurfti að halda sörfinu áfram til þess forðast sjóveiki í þessari ringulreið.

Ég rannsakaði síðan grasrótarstarfsemi og einkaframtak kvenna (eitthvað sem ætti að gleðja blákonurnar). Ég tók viðtal við mömmu mína af þessu tilefni. Hún elskar Sjalla í augnablikinu því þeir vilja hjálpa henni með einkaframtakið hennar. Enn meiri sjóveiki. Konur eru duglegar við að koma á fót grasrótarstarfsemi sem hefur gríðarlega mikið gildi fyrir samfélagið, en þeim fylgir oft fórnarkostnaður, barátta, sjálfboðavinna og óvirðing við vinnu þeirra. Mannréttindastofa, Samtök um kvennaathvarf, Stígamót og sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðingar - allt konur að vinna grasrótarstarf af hugsjón um leið og þær berjast við að halda úti þjónustunni sem þær bjóða. Ég bara man ekki eftir neinum karli í sambærilegri stöðu. Hvað eru þeir að gera?

18 október, 2005

Síðasta tilraun með þetta blogg. Ég hélt ég væri búin að laga stafaruglið. Er þetta ennþá í rugli þegar farið er inn á síðuna?

Það var fundur um Þjóðarbókhlöðuna í dag. Hún mun skerða opnunartíma sinn frá 1. desember. Mér var sagt á þeim fundi að eina ráðið sem dugar er að stúdentar fari í aðgerðir. Ég segi bara lets!

Eitthvað var kvartað yfir því að fundurinn væri ekki nógu vel auglýstur. Við notuðum öll tiltæk ráð. En nú er komið vilyrði fyrir að nota hi-nem póstlistann svo það verður gert næst. Ég mæli með þessum fundum. Þótt þeir hljómi ekki spennandi þá koma þeir alltaf á óvart.

Pöbbquiz á morgun, miðvikudag, kl 20. Vökuliðum og Háskólalistanum var boðið sérstaklega svo það ætti að vera stuð. Þemað er "einræðisherrar".

Röskvufréttum er lokið. Fréttir næst annað kvöld.

11 október, 2005

oh jess komin með nettengingu aftur. Agalegt að þurfa að hanga í skólanum fram á rauðar nætur til þess að komast á alheimsvefinn.

Ég er orðin alltof sein með fréttirnar af októberfest. Það var bara gaman. Dansaði uppi á borðum og hoppaði fram af þeim líka. Eitthvert mann-fall varð sökum þessa.

Röskva stóð fyrir áhugaverðum hádegisfundi í dag. Atli Bollason og Dagur B. Eggerts fjölluðu um 'hlutverk Stúdentaráðs' í ljósi þess að ráðið felldi tillögu Atla í sumar um að álykta um Vatnsmýrina. Ástæðan var sögð vera að málið þætti of pólitískt.
Niðurstaða fundarins í dag var í fáum orðum að Stúdentaráð ætti að álykta um pólitísk mál er snerta stúdenta, sem það gerir svo sem t.d. varðandi skólagjöld. Stundum virðist það bara skipta mestu máli frá hverjum tillagan kemur en ekki innihaldið. Skeggræddar voru síðan hugmyndir um hvernig hægt sé að koma vilja stúdenta um skipulag Vatnsmýrinnar á framfæri.
Dagur sagði einnig heilmargt skemmtilegt um það hvernig var í hans tíð í Stúdentaráði og hljómaði það eins og öllum meiri aksjón en gerist í dag.
Lokarorð fundarins var: HUGSIÐ STÓRT!

Ég fæddist á kolröngum áratug. Það er ekki nógu mikið stuð í þessu.

07 október, 2005

Dauði ritgerðar

Næstum því versti dagur lífs míns var í gær. "Ritgerðin" er samsæri illa þefjaðs fólks til þess að ganga frá mér. Ég veit það.

Eftir að hafa reddað einhverjum ljósritum, sem voru ljósrit af ljósritum frá góðvilja bekkjarfélögum + einum norðlenskum velvirtum sjalla, hófst ég handa með miklum hamagangi við ritgerðarsmíðar. Þykir mér slíkar smíðar mikið andlegt og líkamlegt puð og sérstaklega þegar allt er á síðustu stundu. Oft hvarflaði hugurinn að uppgjöf þrátt fyrir að slíkt hefði frestað útskrift og frekari ritgerðardauða um hálft ár. En ég lét ekki bugast og ætlaði aldeilis að taka þessa ritgerð í nefið ...snýta henni hreinlega.

Hellt var upp á kaffi kl 00:30 aðfaranótt skiladags, kl 03:00 var sér skellt í sturtu, milli kl 05:00 - 07:15 voru augun hvíld, kl 10:00 var ritgerðarfjandinn laus og tími til kominn að prenta.

En hvað gerðist? Haldið þið að seinheppin manneskja á óhappadegi hafi tekist að skila einni saklausri ritgerð ...jah! undir venjulegum kringumstæðum hefði ofurvenjulegt fólk bara sagt sjúkket!, skilað og farið heim að sofa. En nei!

Ritgerðin hvarf !!

Af hverju hvarf hún? Það veit enginn. Ekki pabbi minn og ekki tölvunarfræðingurinn og allra síst ég. Hún bara hvarf fyrir framan augun á mér, kvaddi ekki einu sinni - bara eyddist upp og dó.

Nú hefði ég viljað geta sagst hafa "tekið þessu eins og maður" en sökum svefnleysis og almennrar óhamingju yfirleitt með þessa ritgerð skældi ég krókudílatárum langt fram eftir degi eða þar til ég gat aftur setið upprétt, þurrkað framan úr mér horið og byrjað upp á nýtt.

Stundum er lífið bara ósanngjarnt.
...ég verð í Odda fram á mánudag ef einhver spyr.

02 október, 2005

Ég var alveg kominn með nóg af blogglífinu

Held ég hafi aldrei átt um eins sárt að binda í ritgerðarsmíðum eins og nú. Í þrjár vikur hef ég sett mig oft í stellingar til að byrja en ekkert gerist. 4 dagar í skil og ég er með ekkert á blaði - ekki einasta neitt!

Ég tek athyglisbrestinn á mig en annað er algjörlega kennaranum að þakka. Hann setti fyrir sama ritgerðarefnið fyrir samtals 73 nemendur. Hann heimtar 10 heimildir annars fellir hann okkur ...haldið þið að það séu til 730 heimildir á Hlöðunni um aðdraganda stofnunar Evrópusambandsins frá árunum 1948 - 1958? Nei, það eru til ca 25 bækur sem hugsanlega innihalda eitthvað sem má kannski nota og þær hafa verið í útláni frá því að ritgerðin var sett fyrir. Haldið þið að ég hafi verið nógu fljót til að næla mér í eins og eina bók? Nei, það var ég ekki og samnemendur mínir, allir 72, liggja eins og ormar á gulli á bókunum og neita að skila þeim svo fleiri geti notið. Haldið þið að ritgerðin mín verði það snilldarverk sem ætli mætti? Nei, hún verður byggð á 3 tímaritsgreinum og skólabókinni og hún mun fá einkunnina 3.

Það á að banna þetta!