Í dag gerðist ekkert. Hjá mér það er að segja. Stymmi fékk nýja myndavél. Ég held að þeim komi ágætlega saman. Hann hefur að minnsta kosti ekki sagt mikið síðustu klukkustundir og stíliseruðum myndum af mér, úfinni á bak við tölvuna, fer fjölgandi með hverri mínútunni.
Það hefur aðeins eitt markvert gerst síðan Silja Bára kvaddi. Ég horfið á knattspyrnuleik í fyrra kvöld. Heilan. Hvernig það kom til spyrja margir sig væntanlega að. Jú, ég lenti í því óhappi að fá slæma magapínu og festast í stofusófanum. Hreinlega gat mig hvergi hreyft. Til allrar óhamingju var akkúrat þessi íþróttakappleikur í sjónvarpinu og aldrei þessu vant vildi Styrmir endilega horfa. Þarna lá ég, dæmd til þess að horfa á þetta sálardrepandi sjónvarpsefni.
Styrmir hafði farið mikinn í útskýringum á leikreglunum, hvenær leikmaður er rangstæður og hver á að hitta í hvaða mark, þegar hann áttaði sig á því að áhugaleysi mitt stafar ekki af skilningsleysi. Þótt kona gjarnan vildi kemst hún ekki hjá því að vita hvernig þessi óspennandi en þó uppáhaldsleikur jarðarbúa fer fram. Þá sérstaklega ef hún hefur búið með fótboltafanatíker no.#1 í sínu fyrra lífi.
Þarna lá ég og hafði kannski örlítið gaman af fyrri hálfleik. Ég velti því fyrir hvort mér þætti, eftir allt saman, fótbolti skemmtilegur. Það var fjör í leiknum, strákarnir sprækir. Eiður (okkar maður) og maðurinn með krullutaglið skoruðu mörk. Þá er gaman. En það er nákvæmlega málið. Það er BARA gaman þegar einhver skorar eða næstum því skorar. Í seinni hálfleik gerðist ekkert - ekkert segi ég. Þá þótti mér sófavistin fyrst erfið. Þeir spörkuðu bara boltanum á milli sín, meiddu sig og einstaka sinnum köstuðu markverðirnir (sem heita målmænd á dönsku - alltaf læra eitthvað nýtt) boltanum á milli sín.
Þegar ástandið var orðið óbærilegt reyndi ég að láta mig leka úr sófanum í þeirri von að geta skriðið burt úr þessum aðstæðum. Því var ekki vel tekið. Þegar ég var komin hálf á gólfið spurði Styrmir mig hvað ég þættist vera að gera, það væri bara ein mínúta eftir! (ok,ok) En það var helber lygi. Við bættust fjórar mínútur og ég sat fimm mínútum lengur yfir tuðrusparki, þar sem leikmennirnir voru nú farnir að hrynja í jörðina hver á fætur öðrum með beyglaða ökkla og hné og hæla og .... mér fannst ég verri manneskja fyrir vikið.
------
Varðandi kókið, þá langaði mig bara til að koma þessu að, þar sem þetta er og hefur verið skoðun mín um árabil. Stund sannleikans ef svo má segja.