18 desember, 2006

Hlæhlæ



Ég kem til Íslands eftir einn, tvo, ÞRJÁ daga. Vúhú! Ég hlakka svona mikið til. Ég veit ekki hvaða símanúmer ég verð með. Ef ég finn gamla símakortið mitt, þá verð ég með sama númer og síðast ...man ekki aaalveg á hvaða góða stað ég lét það en það sakar ekki að láta reyna á það ef vilji er til að hitta gömlu.

Sjáustum á Íslandi góða fólk og GLEÐIGLEÐIGLEÐILEG JÓL !!!

15 desember, 2006

GreingreniGrein

Grein eftir Styrmi og Evu á Vefritinu í dag.

14 desember, 2006

Ónei!

Ég verð ein heima fram á sunnudagskvöld. Ljósmyndarinn og tízkuspekúlantinn Stygo fer í sérlega vinnutízkuferð til Stokkhólms yfir helgina. Ég hef alvarlega hugsað um að fá mér hótelherbergi á meðan. Það er svo einmanalegt á Östebro þegar enginn er heima. Kannski er ágætt að ég fari í próf á laugardaginn. Það er allavega nóg að hugsa um þangað til. Í eftirmiðdaginn mun ég spæna upp jólagjafalistann og pakka inn, því síðan er það bara 'back to business' á sunn. Ég mun gera allt til þess að þurfa ekki að læra í jólafríinu - sem er samt algjörlega óraunhæft.

Eina huggunin í einsemdinni verður hinn nýi og gullfallegi Vestax Handytrax, sem við tízkuparið gáfum hvoru öðru í jólagjöf.



Sko, sjáið hvað hann er agalega patent. Hann er líka taska!



Og þetta er allt sem ég veit um það. Við eigum eina vínyl plötu, sem er með upptökum frá Studio One á Jamaica. TízkuStygo vill bara safna plötum sem eru einhvern veginn en ég man ekki hvernig þær eiga að vera - eða skildi það ekki. Þannig ég ætla bara að fara í vínyl rekkann og vera kúl - Hello ..ég á plöööötuspilara, en þú? Ég átti mér alltaf blautan draum um að gerast plötusnúður. Nú þarf ég bara að finna út hvernig plötur ég kaupi.

12 desember, 2006

Síðasta færsla byrjar svo sorglega að ég verð að færa inn nýja.

Helga skrifa mjög góða og þarfa grein á Vefritinu í dag. Endilega lesið hana. Hugvekja út af fyrir sig.

Ég hef ekki verið duglega við að laga tenglalistana og það vantar mjög marga. Ég veit að þetta er eftirsóttur listi að vera á en það er bannað að móðgast. Ég bætti við tveimur rétt í þessu. Það er Silja Bára, leiðbeinandi minn í B.A. ritgerðinni, aðjúnkt við HÍ, framkvæmdastýra alþjóðastofnunar HÍ og bíómyndaþýðandi. Mér þykir skemmtilegast að skoða hvað háskólakennarar gera í hinni vinnunni sinni eða í frítíma sínum. Það er alltaf eitthvað skrýtið. Silja þýðir bíómyndir, Gunnar Helgi skrifar kokka/vísnabækur og er í hljómsveit ...æ ég man eiginlega ekki fleira en hef svolítið gaman að skoða CV-in hjá svona fólki.

Hinn tengillinn er inn á síðu danskíslenska ljósmyndarans Sty Magg, sem fékk nýja myndavél í síðustu viku og gleður okkur nú með myndum af dönskum raunveruleika.

10 desember, 2006

Rafmagnslaust

Ég er ein heima, svöng, við það að missa hárið af próf og verkefna stressi og það er rafmagnslaust, sem veldur því að ég get ekki eldað mat, ekki lesið og er að berjast við sjálfa mig að fara ekki í brjálæðiskast af stressi og vannæringu.

Think happy thoughts...

Svo ég læt mig á meðan dreyma um öll ferðalögin sem ég á eftir að fara í. Ég hef nefnilega bara komið til vesturhluta Evrópu...



create your personalized map of europe
or check out our Barcelona travel guide

og bara séð 8% jarðarinnar



create your own visited country map
or check our Venice travel guide

Mest langar mig í ferðalög um Mið og Suður - Ameríku, taka Mongólíulestina frá Rússlandi til Kína og til Indlands. Ég held að Indland sé fyrirheitna landið mitt. Ég alltaf verið heilluð af því og ég elska indverskan mat. Það eru svo margir grænmetisætur á Indlandi að það er til mikið úrval af grænmetisréttum og veitingastaðirnir eru meira að segja sérstaklega merktir hvort þeir eru grænmetisstaðir eða kjötstaðir. Það er líka gerður greinamunur á því hvort þeir eru grænmetisstaðir sem nota mjólk eða ekki. Fullkomið! Landið er líka fjölbreytt og fallegt og þar er hægt að gera marga spennandi hluti. Þar eru jógaskólar, klaustur, hjálparstarfsprógrömm sem hægt er að vinna á bara nokkrum vikum, Himalaya og Tíbet í bakgarðinum. Ég er nefnilega ekki mikið fyrir sólarstrendur, allavega ekki í meira en 2-3 daga. Ég vil heldur skoða og gera.

Malasía, Indónesía, Víetnam og Thailand eru eitthvað heillandi líka. Nýja Sjáland, Karabískahafið, Tanzanía, ríkin í Sameinuðu arabísku furstadæmunum .... mig langar á alla þessa staði. Mér mun áreiðanlega ekki endast ævin til þess, en það er gott að láta sig dreyma. Mér líður strax betur.

07 desember, 2006

Guð er hvorki í Coke né fótbolta

Í dag gerðist ekkert. Hjá mér það er að segja. Stymmi fékk nýja myndavél. Ég held að þeim komi ágætlega saman. Hann hefur að minnsta kosti ekki sagt mikið síðustu klukkustundir og stíliseruðum myndum af mér, úfinni á bak við tölvuna, fer fjölgandi með hverri mínútunni.


Það hefur aðeins eitt markvert gerst síðan Silja Bára kvaddi. Ég horfið á knattspyrnuleik í fyrra kvöld. Heilan. Hvernig það kom til spyrja margir sig væntanlega að. Jú, ég lenti í því óhappi að fá slæma magapínu og festast í stofusófanum. Hreinlega gat mig hvergi hreyft. Til allrar óhamingju var akkúrat þessi íþróttakappleikur í sjónvarpinu og aldrei þessu vant vildi Styrmir endilega horfa. Þarna lá ég, dæmd til þess að horfa á þetta sálardrepandi sjónvarpsefni.

Styrmir hafði farið mikinn í útskýringum á leikreglunum, hvenær leikmaður er rangstæður og hver á að hitta í hvaða mark, þegar hann áttaði sig á því að áhugaleysi mitt stafar ekki af skilningsleysi. Þótt kona gjarnan vildi kemst hún ekki hjá því að vita hvernig þessi óspennandi en þó uppáhaldsleikur jarðarbúa fer fram. Þá sérstaklega ef hún hefur búið með fótboltafanatíker no.#1 í sínu fyrra lífi.

Þarna lá ég og hafði kannski örlítið gaman af fyrri hálfleik. Ég velti því fyrir hvort mér þætti, eftir allt saman, fótbolti skemmtilegur. Það var fjör í leiknum, strákarnir sprækir. Eiður (okkar maður) og maðurinn með krullutaglið skoruðu mörk. Þá er gaman. En það er nákvæmlega málið. Það er BARA gaman þegar einhver skorar eða næstum því skorar. Í seinni hálfleik gerðist ekkert - ekkert segi ég. Þá þótti mér sófavistin fyrst erfið. Þeir spörkuðu bara boltanum á milli sín, meiddu sig og einstaka sinnum köstuðu markverðirnir (sem heita målmænd á dönsku - alltaf læra eitthvað nýtt) boltanum á milli sín.

Þegar ástandið var orðið óbærilegt reyndi ég að láta mig leka úr sófanum í þeirri von að geta skriðið burt úr þessum aðstæðum. Því var ekki vel tekið. Þegar ég var komin hálf á gólfið spurði Styrmir mig hvað ég þættist vera að gera, það væri bara ein mínúta eftir! (ok,ok) En það var helber lygi. Við bættust fjórar mínútur og ég sat fimm mínútum lengur yfir tuðrusparki, þar sem leikmennirnir voru nú farnir að hrynja í jörðina hver á fætur öðrum með beyglaða ökkla og hné og hæla og .... mér fannst ég verri manneskja fyrir vikið.

------
Varðandi kókið, þá langaði mig bara til að koma þessu að, þar sem þetta er og hefur verið skoðun mín um árabil. Stund sannleikans ef svo má segja.

05 desember, 2006

Próftarnagír

Það er smá yfirhleðsla á heilanum þessa dagana. Ég hugsa svo hratt og mikið að ég get ekki ákveðið hvað ég eigi að blogga um, því ég hef skipt um skoðun þrisvar áður en ritviðmótið birtist á skjánum.

Þess vegna nýtist þessi síða í einfaldan fréttaflutning:
Ritgerðin gengur vel. Vonandi verður hún komin á slíkt form síðar í vikunni að ég geti bætt við heimasíðuna.

Ég er komin í svakalegt jólaskap. Það hefur ekki gerst svo löngu fyrir jól í að minnsta kosti þrjú ár (þrjár próftarnir). Við höfum skreytt heimilið með jólaskrauti Hildar og Valtýs, sem meðal annars inniheldur þeldökkan jólavein. Ég er sérstaklega ánægð með hann. Það gengur heldur illa að brenna dagatalakertið og hefur það ekki enn náð 1. desember, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Silja Bára, leiðbeinandi minn og snillingur, kom í heimsókn í dag. Við töluðum minnst um ritgerðina mína og mest um hugðarefni okkar og áhugamál - femínisma. Það er svo gaman að tala um femínisma við femínista og um stjórnmál við stjórnmálafræðing. Drukkum kaffi og töluðum og töluðum og slúðruðum. Mjög skemmtilegt.

Fyrir utan örlitla tilbreytingu af og til er lífið komið í próftíðargír. Bókasafn - kvöldmatur - læra - sofa - bóksafn - kvöldmatur .... en það er fínt líka. Þá verða jólin sérstaklega ljúf.

02 desember, 2006

Ætti ég ekki að vera á barnum?


Klukkan er orðin ellefu á laugardagskvöldi. Forvali VG er lokið og ég er ennþá að reyna að byrja að læra. Skellti í mig einni kaffikönnu svona til að poppa nóttina upp. Sambýlismaðurinn er farinn á stúfana og húsið orðið rólegt. Byrja ég þá að læra? Nei, ég skoða heimasíður, les aðeins á Wikipedia, kíki eftir úrslitum í forvalinu og blogga síðan, því það er það eina sem ég á eftir að gera á netinu í dag. Er einbeitingaskortur sjúkdómur?

Jæja, fyrstu tölur komnar. Ögmundur efstur í fyrsta sætinu eftir að tæplega helmingur atkvæða hafa verið talin og Katrín Jakobs fyrir ofan Kolbrúnu Halldórs. Mig grunar nú það eigi eftir að breytast eitthvað. Kristín ekki sjáanleg í 2. - 4. sæti en Andrea Ólafs næst inn í fjórða sætið. Ég veit ekki ...ég þekki engan nema þau á þessum lista. Það væri samt gaman að sjá Kristínu á þingi og áreiðanlega ekki leiðinlegt fyrir skarfana að spjalla við hana í kaffipásum. Ég hefði að minnsta kosti farið kosið hana. Er ég að tala við sjálfan mig? Já, ég held það.

...
ahhh... myndin skýrðist síðar um kvöldið. Sameiginlegt framboð í þremur kjördæmum. Búin að ná þessu. Svona er þegar heimurinn fer fram í gegnum tölvuskjá. Það fer ýmislegt forgörðum. Að minnsta kosti ... Kristín stóð sig bara vel. Önnur inn í fjórða sætið með fleiri en 300 atkvæði. Bravó fyrir henni.