30 október, 2006

Justin Timberlake, Cosmopolitan og Sagan af Macropoulos

Ekkert lát hefur verið á afmælishátíðinni í Köben síðan hún hófst klukkan fimm, stundvíslega, á laugardag. Hér kemur sagan af afmælishátíðinni 2006.

17:00 - Östbanegade, fáklæddur afmælissöngur með gítarspili og formleg pakkaafhending.

Afmælishátíðin var sett með pompi og prakt á slaginu fimm með pakkaafhendingu, eins og ráð hafði verið gert fyrir. Elvis /Bond þema í skreytingum. Afmælisbarninu skipað að fara í sitt fínasta púss.

18:00 - Sushi, kjóll og hvítt

Hvítvín sötrað með uppáhalds mat afmælisbarnsins, sem nú var komin í kjólinn og hælana, hafði sett á sig maskara og var til í allt.


19:00 Cosmo í hópi góðra vina

Keyrt á hótel D'Anglaterre í einn Cosmo fyrir kvöldið. Nágrannarnir á næsta borði 200 kg svartir karlmenn á Jordan náttfötum. Þar sem þeir lágu makindalega í leðursætunum voru þeir ekki alveg í stíl við "Holt-stemmninguna" en brátt kom í ljós hverra manna bollurnar væru. Inn trítlaði nettur, lítill maður með Guevara derhatt. Hann staldraði við í dyrunum til þess að hleypa fólki fram hjá. Með honum var ung kona, líka á náttfötum. Hvað er málið með Kana og náttföt hugsa ég. Litli maðurinn röltir fram hjá borðinu okkar og heilsar bollu-vinum sínum. Styrmir starir á hann stutta stund og segir svo "Er þetta ekki Justin Timberlake". Réttir svo upp höndina og nikkar til litla mannsins. "Jah, það skyldi þó aldrei..." Sagði ég þá og dreypti á kokteilnum.

20:00 Sagan af Macropoulos og hvítvín með klaka

Uppi á fjórðu svölum var gott útsýni yfir bæði sviðið og um 2000 áheyrendur. Þegar við komumst loks upp alla stigana var 100 manna hljómsveit byrjuð að spila í gryfjunni og tjaldið við það að hífast upp. Leigubílstjórinn sem pikkaði okkur upp fyrir framan hótelið hafði verið svo elskulegur að keyra á móti einstefnu til þess að koma okkur alla leið upp að tröppunum á nýju óperunni á Holmen. Hann hélt líklega að við værum eitthvað fyrst við stormuðum út af dýrasta hóteli bæjarins, eins og við ættum eitthvert erindi þangað. Á móti blasti Amalienborg, upplýst í kvöldkyrrðinni. Óperan var dásamleg og liðu þrír klukkutímar hangandi utan á fjórðu svölum eins og fimm mínútur.

23:00 Pollahopp og salsadans

Við óperuna er engin undankomuleið nema með óperustrætó. Við biðum úti í þykkum úða í dágóðastund þar til hressasti strætóbílstjóri norðan alpafjalla birtist. Sagði hann viðstöðulaust brandara í hátalarakerfið, sem skapaði góða stemmningu í rökum bílnum. Þegar út var komið tók við meiri rigning og fleiri pollar. Málning niður á kinnar og blautar tær. Nú skyldi dansa salsa. Eins og tíðkast á salsadansstöðum er lagt blátt bann á yfirhafnir inni á staðnum. Svo maður má byrja á því að klæða sig úr spjörunum í anddyrinu. Fyrir innan tók við seiðandi tónlist og fullt dansgólf að trylltum dansi. Allir nýkomnir af námskeiði. Þar sem hvorugt okkar dansar salsa var byrjað á barnum, sest aðeins niður og spáð í spilin. Að drykknum loknum var hlaupið hugrekki í menn og nokkur vel valin spor tekin á gólfinu. Eitthvað sem líktist ef til vill á einhvern hátt kannski salsadansi en var það augsýnilega ekki ef marka má augngotur salsasnillinganna í kring. En það skipti ekki svo miklu máli á þessum tímapunkti.

01:00 Hip hop og Jazz - fjölbreytni er málið

Eftir afrek dansgólfsins var leitað á önnur mið inni á Mambo Club. Þar mátti einnig finna hip hop senu með dj ekki svo ólíkum bollunum á D'Anglaterre og sveittum unglingum í trylltum mjaðmadansi. Í það skiptið létum við okkur nægja að fylgjast með úr fjarlægð. Stungum frekar saman nefjum og fórum á trúnó. Það er eitthvað heilög stund á djamminu.
Næsti staður var ekki langt undan. Á La Fontaine, elsta jazzklúbbi Kaupmannahafnar var live gigg í gangi. Við gátum troðið okkur út í eitt hornið og hlýtt á jazz í hæsta klassa fram á rauða nótt. Það varð punkturinn yfir i-ið.


04:00 Baunir eiga alltaf við

Af hverju að kaupa eitraðan Kebab af sveittri búllu þegar það er hægt að gera dýrindis baunarétt í eldhúsinum heima? Hér er uppskriftin:

1 dós baunir (t.d. nýrnabaunir, black eyed peas eða kjúklingabaunir)
1 dós niðursoðnir tómatar
1 slumma hnetusmjör (ekki of mikið samt)
Dass af karrýi (steikja það fyrst í olíunni með grænmetinu og baununum)
1 laukur
1 hvítlauksrif
1 paprika
Smá brokkolí
Ferskur chilligaur eða chillimauk
Lúka af rúsínum

Meget godt!

Svo fóru þreyttir en sáttir afmælishátíðargestir að sofa á sínu græna eyra fram að næsta dagskrárlið helgarinnar. Framhald síðar.

23 október, 2006

Nokkrar myndir frá Östbanegade

Styrmir bakar brauð
Hrefna og Agla dansa í innflutningspartýinu
Stymminn í skakennslunni
Nokkrar myndir hér

22 október, 2006

Ísland brýtur alþjóðlegt bann gegn hvalveiðum

Forsíðufrétt á vefsíðu Berlingske Tidende er "Ísland veiðir aftur stóra hvali: 21 árs gamalt alþjóðlegt bann gegn hvalveiðum í atvinnuskyni brotið".


Það er ekki laust við að maður skammist sín ...eða skammist út í ákvörðun ríkisstjórnarinnar og fyrri sig allri ábyrgð. Minnsta kosti hafði ég ekkert með það að gera að koma henni til valda.

Fram kemur í fréttinni að veiðarnar séu vegna ójafnvægis milli hvalstofnsins og fiskstofnsins við landið. Jafnframt er sagt að til standi næsta árið að veiða níu Finnhvali og þrjátíu Langreyði af samtals 95.800 dýrum sem telja tegundirnar tvær.
Tæplega fjörutíu hvalir eru nú engin ósköp miðað við allan þennan fjölda. Það vekur samt einmitt upp spurningar um ástæður þess að hefja veiðar á ný. Hagnaðurinn af hvalkjöti getur einfaldlega ekki verið meiri heldur en tapið á æru Íslands.


Það eru engar ýkjur að ímynd Íslands bíði mikill skaði. Nú þegar hefur Ástralía fordæmt brotið gegn alþjóðalegu banni og lýst því yfir að ekki verði hægt að taka Ísland alvarlega í umræðunni um umhverfismál í framtíðinni. Það var mikið að einhverjir áttuðu sig.

Ég veit ekki hvort allir átti sig á samanburðinum sem var gerður á Íslandi og Norður-Kóreu. Þótt hvalveiðar og kjarnorkuvopnatilraunir séu ekki fyllilega sambærilegar athafnir, þá eru hvers kyns brot gegn alþjóðasamþykktum jafn alvarleg.
Alþjóðasamþykktir eru ekki lög og það er engin lögregla eða dómsvald sem getur refsað ríkjum fyrir að brjóta gegn þeim. Í raun er eina aðferðin til eftirlits óttinn við að ríkið missi "mannorð" sitt í alþjóðasamfélaginu og aðgerðir annarra ríkja svo sem efnahagsþvinganir.
Hreinskilnasta leiðin til þess að taka ekki þátt í alþjóðlegum samþykktum er einfaldlega að skrifa ekki undir. Þar með kemur ríkið hreint fram þótt að það verði að sjálfsögðu litið hornauga. Ef ríki, eins og Ísland, skrifa undir á annað borð þá er ekki til baka snúið. Það sama á að sjálfsögðu við um Norður-Kóreu, sem reynt hefur gagngert að segja sig frá alþjóðasamþykkt um kjarnavopn síðan snemma á tíunda áratugnum með takmörkuðum árangri.

21 október, 2006

Kauphlaup


Það er ágætt að byrja prófsvita helgarinnar á bloggfærslu. Hreinsa hugann áður er kafað verður ofan í upptök og ástæður þjóðernishyggju í heiminum. Þegar stórt er spurt ...

Östebro-liðið var árrisult þennan góða laugardagsmorgunn. Tekið langstökk fram úr og inn í sturtu klukkan hálfníu. Eftir morgunkaffið og hafragraut lá leiðin á Fashion-loppemarket, hvorki meira né minna. Þar biður okkar Hrefna, Sunna, Haukur og önnur hver Köben-tísku-pía í bænum. Svo var svitnað við að skoða og máta og prútta. Strákarnir sátu í makindum uppi í stúku og horfðu yfir kauphlaupið. Sáu líka einstaka beran rass við og við. Voru þá tilbúnir með myndagemsann, perrarnir. Niðurstaða þeirra eftir morguninn var sú að nú væri mál til komið að flytja til austurstrandar Bandaríkjanna. Til þess þyrfti aðeins að taka þátt í grænakortslotteríi og þá væri það komið. Mín niðurstaða, fyrir utan massa svita, var tútúpils, gallabuxnapils og - öllum að óvörum - gulrótarbuxur. Hef ég lengi staðið fyrir áróðri gegn gulrótarsniði en lýt nú í minni pokann og skarta þeim líka. Við sjáum til hversu góð viðbót þetta verður við fátæklegan fataskápinn.

Nú er bara prüfung ja bitte fram á mánudag. Vúhú!

19 október, 2006

Har det hyggeligt og hygge lidt


Det Kongelige Danske Bibliotek við Fiolstræde er augljóslega staðurinn til þess að vera á. Hér er bókalykt og hér er næði. Aldrei hefi ég fundið bókalykt á Hlöðunni - kannski af því að þar eru nánast engar bækur. Í götunni eru meðal margs annars Indriði, 12 tónar, tattoostofa, kaffihús með ódýru kaffi og franskt bókakaffi, japönsk búð og hárgreiðslustofa. Hvað er í nágrenni geimskipsins við Hringbrautina? Björnsbakarí er það sem er í nágrenninu og það tekur 5 min að labba utan um hlussuna til þess að komast þangað. Nei, danskurinn kann þetta. Maður á bara að hygge í öllum aðstæðum. Líka meðan maður lærir lexíurnar.

17 október, 2006

Eva tjáir sig:


Ef tekið er mark á áhyggjum rannsóknarnefndarinnar er ástæða til að ætla að leggja þurfi ólíka áherslu á kynjajafnrétti og önnur mannréttindamál. Kynjajafnréttismálin snerta alla þjóðina en hafa átt undir högg að sækja. Það er því ástæða til þess að veita þeim sérstakt fjármagn, aðstöðu og athygli.“

...meira á Vefritinu í dag.

16 október, 2006

Innflutt á Österbro

Á laugardagskvöldið var efnt til samkomu á Österbro. Líklega var hápunktur kvöldsins þegar Jón Pétur skellti Karabíahafsmússíkinni á fóninn hóaði í Köru sína. Þau skyldu sýna amatörunum hvernig þetta væri gert. Svo var sjöfflað inn í nóttina.

Það var margt góðra gesta hjá okkur. Fólk sem ég þekkti og ekki. Stöðugur straumur inn og út og allt jafn skemmtilegt. Innflutningsgjafirnar voru með besta móti. Fjöldinn allur af rauðvínsflöskum og fallegir bollar. Girnilegar flödeboller fengum við frá Sverri Bolla og Ingu en Hauki þótti baðherbergið helst til of litlaust svo hann færði okkur ótrúlega fína 'pop-duck' til lífga upp á sturtuferðirnar.


Sunnudeginum eyddu Jón og frú í að hvíla sig eftir dansinn. Ferðalögin þann daginn takmörkuðust við frá A (rúmi) til B (sófa). Tekur ægilega á að dansa svona.

-----

Vefritið gekk vel fyrstu helgina. Margir gestir og fullt af viðbrögðum. Las ég samtöl manna á milli á alnetinu að höfundarnir væru ekkert annað en ótýnd undanrenna. Ég hef nú ekki heyrt þá myndlíkingu áður en þykir hún frekar fyndin. Jafnframt er því haldið fram að ritið tengist á einhvern hátt næstu kosningum. Það hefði hins vegar ekki skipt máli hvenær Vefritið opnaði, það hefði alltaf verið hægt að tengja það einhverjum pólitískum viðburði. Málið er að pólitíkin er alltumlykjandi og er stanslaus. Það er alltaf tími fyrir nýjar raddir og viðhorf. Markmiðið er að vekja athygli á hugmyndum sem oft fá ekki sanngjarna umfjöllun því þær samræmast ekki gildum ráðandi afla. Umræðan um þá samfélagsskipan og stjórnkerfi sem ríkisstjórnin styður er normaliseruð - gerð að því sem 'á að vera' en er ekki einn möguleiki af mörgum. Vefritið vill velta upp öðrum hugmyndum þó það væri ekki nema bara til þess að sjá að aðrir möguleikar eru okkur í raun opnir.

13 október, 2006

Vefritið


Þessi fréttatilkynning barst fjölmiðlum á Íslandi í dag:

Nýtt vefrit um pólitík og samfélagsmál opnar í dag, föstudaginn 13. október undir vefslóðinni http://www.vefritid.is./ Á Vefritið skrifar fjölbreyttur hópur ungs fólks sem á það sameiginlegt að vera frjálslynt félagshyggjufólk.

Er það mat stofnenda Vefritsins að sár þörf sé á umræðu á grundvelli jafnaðarstefnu á meðan yfirdrifið mörgum hægrisinnuðum íhaldsvefritum sé haldið úti.

Ritstjórn Vefritsins vonast þannig til þess að það verði vettvangur ferskrar umræðu, sem situr ekki föst í skotgröfum en er spyrjandi og leitandi í umfjöllun um málefni líðandi stundar. Vefritið er óháður miðill sem tengist hvorki stjórnmálaflokkum né félagasamtökum.


...ég á grein á þriðjudaginn 17. okt hohoho!

10 október, 2006


Það er ótrúlega mikið af lágum gluggum í Kjuben. Eitthvað sem mér þykir ótrúlega spennandi sem ástríðufullur gluggagægir. Þegar ég labba um götur er ég undantekningalaust að góna inn um gluggana um leið og geng fram hjá þeim. Ég sé svo margt skemmtilegt sem kemur ímyndaraflinu á flug. Til dæmis þegar ég geng heiman frá mér út í hraðbankann nokkrum hornum neðar.

Húsið við hliðina á okkar er kollegí en ekki fyrir sótsvartan almúgan heldur eitthvað sem minnir frekar á heimavist fyrir heldri borgara. Þegar sótt er um þarf að láta ferilskrá fylgja með umsókninni og þarna er eldhús sem býður upp á máltíð þrisvar á dag. Þetta er einhvers annars eðlis heldur en hjá honum Rassa Nílsen á Amager. Allt þetta er staðfest þegar rýnt er inn um gluggana að kvöldlagi. Í nánast hverri íbúð má sjá útúrstílereseruð loftljós - og við vitum öll hvað það þýðir.

Aðeins neðar í götunni geng ég fram hjá skringilegu komplexi sem virðist frekar vera ódýrt hótel á Kanarí en Kaupmannahafnarhús. Svalirnar eru yfirbyggðar og utan á hanga pottablóm í alls kyns litum. Neðsta horníbúðin hefur vakið sérstaka athygli mína. Stofan er bleik. Þetta þótti mér undarlegt og velti því fyrir mér hvers konar manneskja byggi þarna. Í kvöld stóð svo miðaldra, síðhærður karlmaður á svölunum og reykti. Það er engin leið að vita ....

Á hornin á Jens Mons götu og Strandboulevarden, sem ég geng, er skemmtileg píanóbúð. Í sama húsi sé ég inn um spennandi glugga. Maður situr inni í tiltölulega stóru herbergi og skrifar. Veggirnir í herberginu er þaktir frá gólfi upp í loft af bókum ...eða plötum ...eða bæði, ég þorði ekki að rannsaka það nánar.

Þá er ég nánast komin í hraðbankann. Á horninu á móti er Pizzeria. Opnunartímarnir eru meira eftir hentisemi eigandans og síðustu helgi var lokað á meðan landsleikurinn milli Danmerkur og Norður-Írlands fór fram í Parken.

Á heimleiðinni geng ég eftir hinni hlið Boulevardsins af einskærri forvitni um nágranna mín þeim megin. Við hliðina á lítilli sjoppu er skrýtin, einskonar "lífstílsbúð" sem inniheldur föt, skartgripi, glös og vekjaraklukkur. Við fyrstu sýn virðist þetta vera eitthvað kúl en þegar betur er gáð má sjá heimagerð hekluð hárbönd skreytt með hnöppum og kjól alveg eins og hún Mína Mús átti forðum. Mér dettur helst í hug að búðin sé eitthvað á vegum Danmarks Designskole sem er einmitt næsta hús.

Inn um gluggana á skólanum sé ég vinnustofur á mörgum hæðum. Þegar komið er myrkur sjást vígalegir keramikofnar, tréverkstæði og mannháar borvélar. Ég sem hafði séð fyrir mér hönnunarnema sem fólk í gulrótabuxum með topp í augunum að skoða Wallpaper og "skapa" eitthvað.

Þá er ég komin heim aftur. Gluggarnir í húsinu mínu er svo efni í alveg nýja sögu.

03 október, 2006

Ekkert með engu


Ég lofaði góðri sögu í næsta skiptið og hef verið að reyna að finna upp á einhverju frábæru. Málið með Köben er að hún er næstum of venjuleg fyrir Íslendinga. Það er ekkert skrýtið í gangi. Bara svona venjulegt fólk og venjulegar búðir og allt bara ótrúlega venjulegt. Svona næstum því allavega. Það er reyndar ekkert venjulega hljóðbært í blokkinni okkar. Í morgun vorum við alveg með í morgunmatnum hinu megin. Þau voru að horfa á enska fréttastöð og steikja eitthvað. Eins gott að þau séu ekki með lélegan tónlistarsmekk.

Ætli það eina skrýtna í Kjöben þessa dagana sé ekki bara ég. Að minnsta kosti er erfiðara en allt að finna mat sem inniheldur ekki hvítt hveiti, hvítan sykur eða mjólkurvörur, eins og Hallgrímur Magnússon mælti fyrir um. Ég skellti mér nefnilega til Hveragerðis til að hitta kallinn og fá góð ráð. Uppskar þriggja mánaða bindindi og hreinsikúr sem samanstendur af engu með alls ekki neinu. Það er ekki beint næringarfræðin í kjúlla- og beikonsamlokulandi.

Blenderinn er komið í gagnið. Nú er bara múlinexið, djúspressan og vöfflujárnið eftir.

Ég mæli með Stjórnmálaskóla Femínistafélagsins fyrir konur 6. - 7. október.