30 nóvember, 2006

Bond, vinur minn Bond

Við Stymmi og Indriði sáum Casino Royal í gærkvöldi. Þrátt fyrir að sögurnar um James Bond séu fullar ofbeldi, karlrembu og klisjukenndum one-linerum, þá fíla ég þær. Mér er eiginlega alveg sama um hvað þær eru eða hvernig til heppnast í það skiptið. Mér þykir bara gaman að horfa á þær.

Líklega er það vegna þess að pabba mínum þykir þær óhemju skemmtilegar og bauð mér alltaf með sér í bíó þegar ný mynd kom út. Í því fólst mikil eftirvænting. Síðustu mynd sáum við í Lúxussalnum í Smárabíó. Lágum í Lazy-boy og drukkum bjór.

Svo þið skiljið. Þetta snýst ekki um að myndirnar séu eitthvað sérstaklega góðar. Þetta snýst um stemmningu. Svona eins og með jólin.

Annars hafði ég gaman af því hversu vel Daniel Graig tókst til við að túlka unga Bond, sem er að byrja í bransanum. Svolítið hræddur og smeykur í byrjun en í lokasenunni orðinn Bondinn sem við öll þekkjum. Indriða þótti hann alltof vöðvastæltur og þunnhærður. Hann fílaði heldur ekki að Bond fengi hruflaða hnúa eftir slagsmál og að hann sýndi eftirsjá. Það er satt að myndin er mun realískari heldur en fyrri myndir - það gerir hana kannski að minni Bondmynd. Ég veit ekki alveg með Bondstúlkuna, Evu Green. Þegar hún reyndi að tala sexy þá hljómaði hún eiginlega eins og froskur. Judi Dench var flott að vanda sem M.
Ergo sum: Jájá, fín mynd - stemmning!

29 nóvember, 2006

Tízku Jól

Það var einmanalegt í kofanum í gær. Íbúum hafði fækkað um helming.

Helgin kom með jólin. Eftir allt labbið í jólaljósunum í bænum og fallega skreytta Tívolíið er komin tilhlökkun til jólanna. Nú eigum við meira að segja dagatalakerti og spelt-piparkökur. Grenigreinar og mandarínur eru líka nauðsynlegar. Mest langar mig þó í alvöru jólatré. Bo Bedre segir að í ár eigi þau að vera gisin og skreytt heimatilbúnu skrauti. Mamma sagði að jólin í ár væru fjólublá. Ég hef satt að segja aldrei verið hrifin af tískustraumum þegar kemur að jólunum. Stíliseruð jól er eitthvað skrýtið, þótt eflaust hafi margir gaman af því. Helst á maður að eiga jólaskraut af öllum tegundum, eitthvað sem maður föndraði sjálfur, eitthvað sem amma átti, eitthvað sem var á tilboði. Allt í bland. Það er svo hátíðlegt að taka alltaf upp sama jólaskrautið, upp úr sama kassanum á hverju ári. Um það snýst þetta nú. Að gera alltaf eins, halda í hefðirnar eða búa nýjar til.

26 nóvember, 2006

Mömmuhelgi

Mamman mín og Snorri, litli bróðir hafa eytt helginni með okkur hér á Östbane. Ég fór á Kastrup á fimmtudagskvöldið til þess að taka á móti þeim. Áður en mamman komst í gegnum tollhliðið var allt komið í handapat frammi á gangi, því þar fékk maður hjartaáfall. Það voru frekar óhugnalegar mínútur þar sem aðstandendurnir hrópuðu á hjálp og reyndu að gera hjartahnoð án þess að vita hvað þau væru að gera. Ég hringdi náttúrulega bara í mömmu, eins og maður gerir þegar það eru vandræði, og hún kom hlaupandi út. Þannig hittumst við aftur eftir tveggja mánaða aðskilnað. Sjúkraflutningamenn komu fljótlega og við gátum byrjað helgarferðina.

Ég fann bara tvær myndir af okkur þremur. Teknar með tíu ára millibili:


Eva, Mamman og Snorri 1996

Frá því að litli bróðir kom til Danmerkur hefur hann keypt sér tölvuleik og spilað tölvuleik. Þetta er agalega spennandi tölvuleikur ef marka má einbeittan svip unga mannsins. Hann hefur reyndar líka kíkt í Tívolí en fékk fljótlega í magann eftir allt nammið sem hann hafði torgað. Hann fór líka í sund í DGI byen, en stuttbuxurnar sem ég hafði gefið Styrmi í afmælisgjöf reyndust of víðar til þess að taka þá áhættu að stökkva af stökkbrettinu. Stóra systir bauðst til þess að koma með honum á brettið en hætti við eftir skarpa athugsemd um að hún væri í bikini, sem myndi að öllum líkindum verða eftir í pollinum ef hún stykki. Og ekki viljum við verða sundfatalaus. Það voru ákveðin vonbrigði (fyrir það okkar sem þykir gaman að henda sér fram af hlutum).

Örlítil seinheppni hefur einkennt ferðalagið. Í bæjarferðinni týndist innkaupapoki. Það var svekkjandi og stressaði gestgjafinn fór í mínus. En sem betur fer var mamman að ljúka námskeiði í einhverju (eins og hún gerir gjarnan) sem gerði það að verkum að hún setti allt í víðara samhengi. Það er allt í lagi að týna hlutum sem hægt er að endurheimta - fara bara í næstu búð og ná í nýtt. Hugsaðu þér ef eitthvert okkar hefði týnt heilsunni eða lífinu? Það verður ekki tekið aftur. Nei, hugsaði ég, það verður ekki tekið aftur. Mamman er snjöll, hún má eiga það.

Á leiðinni frá matarbúðinni, með tvo troðfulla poka af mat og víni, datt eggjabakkinn í götuna. Eitthvað týpískt fyrir seinheppnina. Fyrst karlinn á flugvellinum, síðan innkaupapokinn og nú eggin. Langar manni þá ekki bara að öskra og sparka í eitthvað. Nei, maður setur hlutina í samhengi, er meðvitaður. Þetta skiptir engu máli og við kaupum bara fleiri egg. Þetta verður eins og mantra.

Snorri, Mamma og Eva 2006

Það er þó ekki allt í pati í helgarferðinni. Það var svolítið gaman að tísta og hlæja með mömmu í mátunarklefanum í fínu búðinni. Maturinn á Reef n'Beef var einstaklega góður og Tívolíð er fallegt og rómantískt í jólabúningnum. Ekki spillti rússibaninn fyrir (fyrir það okkar sem þykir best að hafa magann uppi í vélindanu).

Nú var verið að ljúka við sunnudagsbrunchinn og halda skal út á vit ævintýranna á Österbro. Sunnudagsbíó í sjónvarpinu í kvöld og alveg áreiðanlega popp og súkkó með'ví. Hugge, hugge, hugge ...

21 nóvember, 2006

MS-ÍS gengið

Þá er Sunna farin og brátt er von á mömmunni og litla bró. Það er nóg að gera í útlöndum, ef útlönd skyldi kalla. Þetta er meira eins og að vera á Íslandi með örlítið fleiri innflytjendum.

Við Styrmir höfum ákveðið að stofna gengi. Við sáum heimildaþátt á National Geographic um gengið MS-13 í Los Angeles og langar núna að gera eigið útibú á Österbro, sem við köllum MS-ÍS. Á morgun förum við á tattústofuna á Fiolstræde og fáum okkur MS á annað augnlokið og ÍS á hitt, eins og er til siðs. Við sjáum mikla möguleika í þessu. Við innheimtum skatt af öllum smásölunum í hverfinu. Byrjum kannski í 25% en hækkum í 50% þegar við höfum safnað fleiri hörðum grunnskólabörnum í lið með okkur. Innvígsluaðferðin hjá Könunum er svolítið ýkt, 13 sekúntur af barsmíðum frá félögunum. Við förum kannski í svona fimm. Það er alveg hægt að ná góðum höggum á þeim tíma. Þá eigum við bara eftir að finna óvinagengi og skotvopn. Það er víst nóg af því uppi á Nörrebro.

MS-13 er að finna í 33 ríkjum Bandaríkjanna og í sjö löndum utan BNA. Í San Salvador einni telja gengjameðlimir 10.000 manns. Gengið byrjaði sem sakleysislegur félagsskapur ungra innflytjenda frá El Salvador á fótboltavelli í LA. Þeir voru rokkarar, Ozzie Osborne aðdáendur, og þaðan fékk gengið fingramerki sitt "the devil's horn". Með tímanum urðu þeir rætnari og tóku til við ýmsa glæpastarfsemi auk þess sem þeir reyndu að fjölga meðlimum gengisins.

Tíu árum síðar var MS-13 orðið fjölmennasta gengi LA og átti í stöðugum útistöðum við önnur gengi. Þá ákváðu bandarísk stjórnvöld að senda meðlimi sem þeir handtóku aftur til upprunalands síns. Það reyndist afar slæm hugmynd. Í stað þess að takast á við félagsleg vandamál í eigin ríki sendu þau vandamálið yfir til annarra ríkja, þar sem það hélt af sjálfsögðu áfram að vera til. Fyrir árið 1992 höfðu gengjaglæpir ekki verið til í El Salvador. Nú er þar að finna fjölmennasta og ofbeldisfyllsta anga gengisins, ásamt troðfullum fangelsum af MS-13 meðlimum.

Í Bandaríkjunum herja gengin á svokallaða milliskóla eftir nýjum meðlimum, en margir vilja byrja enn fyrr að þjálfa upp hermenn í stríðið gegn genginu í næstu götu. Aðalviðmælandi myndarinnar hafði gengið í gegn um innvígsluna aðeins átta ára gamall og hafði skotið um 20 menn á þeim ellefu árum sem hann hafði verið hluti af genginu.

Fyrst Bandaríkjastjórn hefur svo miklar áhyggjur af öfgafullum múslímum í Mið-Austurlöndum ættu þeir ef til vill að líta sér nær, því ef þetta eru ekki hryðjuverk hvað er það þá?

16 nóvember, 2006

Eva spekúlerar í danskinum

Það er bók hérna í hillunni við hliðina á mér (á bókasafninu) eftir Svíann Evu Fock. Vandræðalegt.

Vefritið hefur upp á margt gott að bjóða þessa dagana eins og alla daga. Ég mæli með þriggja bálka grein eftir Agnar Frey um verðtryggingu - upplýsandi og svo líður manni mjög vel með sjálfan sig ef maður skilur eitthvað.

Í dag er grein eftir undirritaða. Fyrst ég komst ekki heim í prófkjörin, þá ákvað ég að kynna mér danska pólitík. Ég hef reynt að fylgjast aðeins með. Lesið blöðin og svona. Þá líður mér líka vel ef ég skil eitthvað. Ég komst allavega að því að Danir eru ennþá heitir fyrir velferðarmálunum og eru búnir að átta sig á því að Anders Fogh Rasmussen ætlar sér ekki að halda í gamla sósíalinn. Meira um það hér...



En þótt Anders Fogh tapi næstu kosningum, þá mun hann alltaf státa af titlinum "sætasti forsætisráðherrann".

13 nóvember, 2006

Sufjan svíkur sjaldan

Viðburðaríkri helgi er lokið. Á laugardagskvöldið var matarboð á Östbane og setið til fjögur við kappát- og drykkju. Í gær fór sami hópur á Sufjan Stevens á Vega. Ótrúlega flottir tónleikar. Þeir sem eiga miða á tónleikana á Íslandi næstu helgi geta byrjað að hlakka til. Það var notalegt að sitja og hlusta á þessa tónlist eftir frekar auman dag. Á eftir var farið í bjór á Istegade. Þar fengum að vita hver áramótauppskriftin er í ár. "Turduckan" er málið. Kalkúnn með önd innan í, sem er með kjúklingi innan í. Slá þrjá fugla í einu höggi. Ég mun gera mína útgáfu sem verður grasker með eggaldin innan í, sem er með sveppum innan í.

Annars er það að frétta að það er búið að semja um minna áfengismagn á heimilinu. Að minnsta kosti fram að jólafríi. Rauðvínslegin lifur verður því ekki lengur á matseðlinum.
Endalaust barnalán á Íslandi. Tvær stelpur komu sama daginn, Ásdísar/Hjalta- og Möggu/Torfadætur, báðar á Halloween. Ég get því eytt enn meiri tíma en áður inni á barnamyndasíðum og lesið enn fleiri færslur um bestu börn í heimi. Það er gaman.

Prófkjörin voru alveg að fara með mig. Mig langaði allt í einu svo mikið heim að vera með. Ég hef alveg fullt að segja um allskyns sem ég hef lesið á netinu undanfarið en ég þarf nauðsynlega að snúa mér aftur að Bebel, Marx, Engels og hinum kommunum. Meira um pólitíkin síðar.

06 nóvember, 2006

Bor

Hver sagði að það mætti bora á bókasöfnum?

Borat er skemmtileg mynd. Ég fæ samt ennþá martraðir um allsberusenuna.

03 nóvember, 2006

Sjónvarp er böl en fjölskylda svöl

MTV Europe var of leiðinlegt til að geta horft á það. Nýji besti vinur minn stóð sig þó þokkalega sem kynnir kvöldsins. Ég held reyndar að óþolinmæði mín hafi frekar stafað af því að þykja þetta allt frekar hallærislegt. Ekki það að ég sé svona töff en það voru sömu tónlistarmenn í öllum flokkum, sem skiptust í popp, hiphop og alternative. Ég veit ekki hvernig fólk skilgreinir almennt alternative tónlist en Korn og Muse eru það ekki í mínum augum. Popp og hiphop er síðan bara þreytt stöff. Ég nenni ekki að hlusta á það og þaðan af síður að hlusta á söngvarana tjá sig í viðtölum sem koma aðeins upp um afleiðingar dópneyslu til margra ára. Svo finnst mér líka P.Diddy og félagar í ljótum fötum. Svo mörg voru þau orð.

Sem betur fer hef ég margt betra að gera heldur en að horfa á MTV. Það er sannkallaður fjölskyldumánuður í Köben. Samtals sjö fjölskyldumeðlimir munu heimsækja okkur í nóvember. Það er almennileg mæting þykir mér. Reyndar eru aðeins tveir sem koma gagngert að heimsækja okkur en guði sé lof fyrir viðskiptatengsl Íslands og Danmerkur. Hvar værum við án þeirra?

Jólafarið er komið á Visa og við mætum hress í stuði 21. desember til að fagna fæðingu Ésúbarnsins með ykkur.