27 febrúar, 2007

Hressandi morgunlestur

Þetta hafði áhrif á mig þegar ég las vefrit Framtíðarlandsins nú í morgunsárið:

Eitt af frægari, snjöllustu og ófyrirleitnustu áróðsspjöldum síðustu aldar kom fram í Bretlandi á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar, og var beint gegn þeim mönnum sem tregðuðust við að ganga í herinn, og andmæltu jafnvel stríðsrekstrinum í ofanálag. Það sýnir mynd af borgaralegri stofu, faðir með tvö börn, annað þeirra, strákur, að leik með tindáta sína, stúlkan situr á hnjám föðurins og spyr: Pabbi, hvað gerðir þú í stríðinu mikla? Faðirinn, sem hefur greinilega neitað eða komið sér undan því að berjast í stríðinu, lítur sakbitinn undan, og við skynjum að skuggi skammarinnar muni ætíð hvíla yfir ævi hans. Ef við vöknum ekki upp og stígum það risaskref sem þarf að stíga, og lífið veltur bókstaflega á, þá sitjum við eftir tuttugu eða þrjátíu ár með barnabarn á hnjánum, og þegar það spyr, hvað gerðir þú til að koma í veg fyrir eyðingu jarðarinnar, snúum við sakbitnu andlitinu undan og þorum ekki að horfa í auga þeirra sem við svikum með því að lifa eins og við lifum nú. (Jón Kalman Stefánsson í grein sinni "Það er stríð framundan")

Hann er þarna að tala um hvað hvert og eitt okkar getur lagt til í baráttuna. Það er heilmikið og ætti að reynast auðvelt verk á litla Íslandi að ganga vel um og spara stundum bílana.

24 febrúar, 2007

Í dag er ég stjórnmálafræðingur

og alla daga héðan í frá. Í dag þramma samnemendur mínir upp á svið í Háskólabíói og taka við prófskírteini. Ég þrammaði aftur á móti í vinnuna og kokkaði pönnsur. Í tilefni dagsins var mér sleppt snemma og ég sit núna með rauðvínsglas, södd og sæl af dönskum bröns.

Í Dk er enn allt á kafi í snjó, öllum til mikils ama. Danir eru enn meira hissa heldur en Íslendingar þegar snjóar hressilega. Lestin og strætó keyra ekki nema að takmarkað. Reyndar er ókeypis í lestina, því að vaktmennirnir eru allir úti að moka teinana, svo það er jákvætt. En allir koma of seint því það er svo mikil "ófærð". Býr þetta fólk ekki í NORÐURlandi? Veit ekki betur en að hér snjói á hverju ári - ef til vill hafa gróðurhúsaáhrifin bein áhrif á manneskjur líka. Skemmtilegast er samt að sjá að allir Danir eiga viðeigandi klæðnað fyrir öll veður. Núna eru allir í Lacrosse múnbúts, sem er mjög sniðugt. Ég hef aðallega verið með blautar og kaldar tær. Þegar rignir eiga allir hnéhá stígvél og ætli það komi ekki fleiri skótegundir í ljós þegar hlýnar. Ég er að vona að það verði flip-flops sumar í ár. Það er aldrei hægt að nota svoleiðis á Íslandi.

Ég er komin í hörkubísness í skrifunum. Eiginlega meiri heldur en hugmyndaflugið orkar. Núna þarf ég að finna upp á einhverju sniðugu fyrir Trúnó og næstu helgi skrifa ég helgarumfjöllun fyrir Vefritið. Ætli ég skrifi ekki um Gailbraith sem sagði meðal annars að "hógværð væri mjög ofmetin dyggð" og lifði samkvæmt því. Hann var mjög sniðugur gaur og gerir það skemmtilegt að lesa um hagfræðinkenningar - aðallega vegna þess hversu sammála ég er honum í mörgu. Annars eru allar hugmyndir að samfélagslegu skrifefni vel þegið. Hugmyndabankinn er opinn.

21 febrúar, 2007

Grein og snjór

Vefritið skartar grein frá mér í dag. Lesið.

Það er snjóstormur í Danmörku og ég skellti mér í hjólatúr. Það er ekki auðvelt að hjóla í sköflum með skafrenning í augunum. Ég hefði átt að taka skíðagleraugun með. Mér þótti þetta samt svolítið spennandi, að minnsta kosti meira fjör heldur en bara mótvindur. Fékk smá útrás fyrir áhættufíknina að hjóla í torfæru með lokuð augun.

20 febrúar, 2007

Black Ass


Þar sem ég stóð og starði ofan í fimm föt af hráum kjúklingi klukkan átta í morgun upplifði ég allt í einu svona andartak, þar sem maður stígur út fyrir núlíðandi verkefni og hugsar með sér "hvað er þetta? Hvað ég að gera hér?" Mér þótti það allt í einu eitthvað svo furðulegt að eyða sautján árum í að læra að lesa bækur og standa síðan frammi fyrir tíu kílóum af hráum kjúklingi sem þarf að marínera. Kannski er það fullkomlega eðlilegt. Ef til vill er betra að hafa lesið í sautján ár bók eftir bók eftir bók, því þá er nóg að hugsa um meðan maður marínerar. Ekki það að ég hafi pælt mikið í heimsmálunum meðan ég stráði salti og pipar yfir lærin eða ég hafi hugsað til háskólanámskeiða þegar ég lagði þau í lög með þrenns konar olíu. Ætli ég hafi ekki frekar hlegið með sjálfri mér yfir því að vera stödd í 20 fm eldhúsi í Kaupmannahöfn að hlusta á Boney M með kokki frá Burkina Faso. Hún gaf mér fimmu fyrir að vera með "svartan rass" (lesist: stóran).

17 febrúar, 2007

Grasekkja


Nei, það gerist ekki margt þegar kona vinnur frá ellefu til sex alla virka daga. Hafragrautur, kaffi og fréttir af internetinu milli níu og ellefu. Vinna. Vangaveltur um kvöldmat, kvöldmatur og að lokum húslestur. Þar sem búið er fyrir löngu að skrúfa fyrir sjónvarpið hjá okkur (til allrar hamingju, því danskt sjónvarp er krap) er húslestur á kvöldin. Fyrst Sendiherrann og nú síðast bók Eiríks Guðmundssonar, Undir himninum. Ég mæli með húslestri og fyrir þá sem búa einir er hægt að bjóða vini yfir í kvöldte og bókmenntir.

Nú verður þó breyting á stabílum hagi útivinnandi húsmóðurinnar við Östbanegade. Á mánudag mun ég hefja stuttan en vonandi farsælan feril minn sem kokkur. Morgunkokkur. Eftir að hafa masterað latté með hjartamynstri læt ég ekki þar við sitja heldur færi mig yfir í eldamennskuna - avókadósamlokur og pandekager med sirup.

Þar að auki er Östbanebóndinn horfinn á vit ævintýranna til klámeyjunnar í norðri. Ekki þó til að sækja ráðstefnu heldur ætlar hann að opna búð. Tveggja vikna verslun með skyrtum og jakkafötum frá Indriða. Sú verslun átti að opna næsta mánudag, en þar sem að tollayfirvöld munu ekki vinna liðlegheitatitilinn á árshátíð ríkisstofnana í ár opnar hún ekki fyrr en á þriðjudag - í versta falli miðvikudag.

Á meðan að sambýlismaðurinn er að kljást við klám og tollinn ætla ég að kokka á morgnana og skoða Köben í eftirmiðdaginn. Hljómar rómantískt og spennandi en í stað þess að skoða Köben í dag fór ég í El Giganten og keypti headset með hljóðnema til að nota á Skype, verslaði mat í Netto, horfði á Men in Black og hellti upp á Irish Coffee. Er viskí ekki eitthvað fyrir blúsað fólk? Verst að ég drekk það ekki dry, það væri meira kúl. Í kvöld á ég stefnumót við þvottavélina í kjallaranum milli sjö og níu.

13 febrúar, 2007

Femínismi er fljótlærður

Femínismi getur virkað ægilega flókinn stundum og það getur verið erfitt að afla sér nægilega góðra upplýsinga um hann. Að því tilefni hafa systurnar Kristín og Sóley Tómasdætur tekið að sér að setja saman örnámskeið á heimasíðum sínum. Þar má finna Femínisma 103 - 403 og valnámskeiðin 213 og 223. Námskeiðin ættu að fleyta flestum byrjendum af stað og mæli ég með þeim.

Þegar kennslu er lokið og femínisminn sestur að í hugskoti manns er ekki til baka snúið. Þetta er ótrúlega fróðleg leið til þess að skoða og skilja heiminn, því allt er jú byggt á tvíeykinu karli og konu.

12 febrúar, 2007

Ég hef verið svo feimin við að blogga síðan ég fékk link á mig inni á bloggsíðunni Trúnó um daginn. Ég legg nefnilega enga áherslu á að segja neitt af viti á þessari síðu. Meiningin er fyrst og fremst að friða tölvupóstasamviskubitið sem plagar mig þegar ég bý í útlöndum.

En svona til að sýnast fyrir ókunnugum lesendum þá er ég nýbyrjuð á bók um kenningar hagfræðingsins Gailbraiths um samspil stjórnmála og hagfræði. Ég veit ekkert hver hann er og les bara sirka tvær setningar í einu en hann er bara nokkuð skemmtilegur sýnist mér. Fæ laufléttan lúðahroll þegar ég gríp í hagfræðiritgerðirnar en eitthvað verður maður að gera í vit-leysu sinni.

Það merkilegasta sem gerðist í dag var að það kom kona á Laundro með gullderhúfu á aflituðum hausnum og hún var ekkert að grínast neitt með það. Sumir eiga bara að vera heima hjá sér.

Og að lokum myndir frá Östbane


Stymmi í konfektkassanum frá Íslandi


Draugurinn frá Östbane


Matarboð á Östbane

09 febrúar, 2007

Röskva VAAANNN!!!

Ég geri mér vonir um einstaklega góðan dag í dag, því þau skilaboð biðu eftir mér þegar ég vaknaði að Röskva vann kosningarnar til Stúdentaráðs með 20 atkvæða muni. Fyrir tveimur árum síðan stóð ég á kosningaröskvu og tók því sem þá þóttu gleðifregnir að Röskva saxaði á forskot Vöku og fengu fjórða manninn inn. Miðað við gleðina sem ríkti þá get ég rétt ímyndað mér að í þessum töluðu orðum sé ennþá partý einhvers staðar í Rvk. Eftir það sem ég vona að hafi verið gott samstarfsár með Vöku getur Röskva loksins tekið almennilega til hendinni og sýnt hvað í henni býr.

Til hamingju duglega fólk!

07 febrúar, 2007

Mikilvæg skilaboð að handan


Allir sem eru staddir í Reykjavík, eru skráðir í Háskólann og hafa tvo jafnfljóta undir sér eiga að koma við í einhverri byggingu skólans í dag eða á morgun og kjósa Röskvu.

Hey Röskva - rústum þessu í ár!

04 febrúar, 2007


Ég fór loksins í klippingu í gær. Síðast fór ég september. Ástæða fyrir töfum var sú að eftir að hafa eytt meiri tíma ein með sjálfri mér en hollt getur talist þorði ég alls ekki að taka þátt í svo hressandi félagslegri athöfn sem klipping er. Ég brá því á það ráð að klippa mig sjálf með ágætis árangri. Það sem ég vissi þó ekki og kom eigi í ljós fyrr en í ofurhressum tíma hjá Ævari Íslendingaklippara er að hárið mitt er svo til ónýtt. Það er svo illa haldið að ég óttaðist það mest að Ævar myndi dæma það úr leik. Krúnuraka mig og ég myndi missa vinnuna í kjölfarið vegna ljótleika. Sem betur fer er Ævar ekki svo kaldrifjaður heldur seldi mér þess í stað hármeðal að andvirði hægri handleggs sem skal færa mér aftur fína hárið mitt. En meðalið er ekki aðeins undratinktúra. Það líka með súkkulaðilykt í anda hóstasaftsins hennar Mary Poppins . Sjampóið sem ég seldi hinn handlegginn fyrir er síðan með dýrindismangóangan. Svo nú er ég ekki aðeins með gullfallegt hár heldur einnig einstaklega vellyktandi.

02 febrúar, 2007

Búin með BA-ið


Ég sprakk á limminu í gær og hringdi í Silju Báru, leiðbeinanda minn í BA-ritgerðinni. Ég hafði frétt það úti í bæ að einkunn væri komin í hús og gaaat ekki beðið lengur, enda er fólk augljóslega ekkert að flýta sér þarna í Háskólanum. Allavega, eftir hálft ár af heilabrotum, andvökunóttum, samviskubiti, sjálfsvorkunn, en á endanum dágóðri skemmtun, uppskar ég mjög svo gleðilega einkunn upp á níu.

Nú skal þakka þeim opinberlega sem hjálpuðu til. Silju Báru fyrir góðar og skarpar athugasemdir og fyrir að standa aldrei á peppinu. Svo má ekki gleyma að hún lét sig ekki muna um að koma við á Östbane á leið sinni til Strasburg. Vondu frænku minni, Herði frænda og pabba mínum þakka ég fyrir að lesa ósköpin yfir á síðustu stundu. Það reif í samviskubitið, þótt að niðurlotum væri komið, að sjá tölvupóstinn með leiðréttingum Harðar tímasettan klukkan fjögur um nótt. Fórnfúsa fólkið mitt. Síðast en ekki síst á Stymms mikið hrós skilið fyrir þola mig og mitt væl síðastliðið hálfa ár (n.b. helmingur tímans sem við höfum verið saman) og fyrir fallegur rósirnar. Hann er hin raunverulega hetja í sögunnar.

Takk og takk og takk